16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. þm. Ísafjarðar hefði getað sparað sér þessar athugasemdir, því að það eina, sem hann sagði af viti í þetta sinn, hafði hæstv. ráðherra tekið fram áður.

Fyrir okkur, sem flytjum brtill., vakir aðallega að þetta óhæfilega frumvarp eigi að falla alveg. En ef það fellur ekki, þá viljum við, að einnig verði tekin sú hugsunarrétta afleiðing, að þeir, sem fari úr þjóðkirkjunni fái sinn hluta af eignum hennar útborgaðan.

Háttv. 4. kgk. hefir annaðhvort ekki munað lögin, sem hann vitnaði í, lögin 4. marz 1904 og lögin um sóknargjöld frá 30. júlí 1909, eða hann hefir misskilið þau. Eg sagði, að frumvarpið gerði að ástæðulausu greinarmun á frelsi manna til að fara úr þjóðkirkjusöfnuði, eftir því hvort þeir yrðu kyrrir á sóknarsvæðinu eða ekki. Háttv. þm. sagði, að það stafaði af því, að búist væri við, að þeir, sem flyttu af sóknarsvæðinu myndu taka á sig viðlíka byrðar annarstaðar og sagði þar með óbeinlínis, að öðruvísi stæði á um þá, sem kyrrir væru. Veit hann þá ekki, að utanþjóðkirkjumenn eða svokallaðir fríkirkjumenn verða, þótt á sóknarsvæðinu séu, að borga álíka gjöld til fríkirkju sinnar, ef þeir eiga að geta losnað við gjöld til þjóðkirkjunnar.

Háttv. stuðningsmenn frumvarpsins segjast hugsa um það safnaðarbrot, sem eftir verður. En við viljum líka hugsa um rétt hinna, sem vilja ganga úr söfnuðinum. Kirkjan er handa öllum þeim söfnuði, sem býr á sóknarsvæðinu, hvort sem hann er stór eða smár, en kemur hins vegar ekkert við þeim mönnum, er utan hennar standa, þó að þeir búi á sóknarsvæðinu.

Háttv. þm. verður að muna, að félagsskapur er ýmist frjáls eða ófrjáls. Í frjálsum félagsskap er skift bæði skuldum og eignum, á milli félagsmanna, þegar félagsskapurinn er á enda. En þar sem um ófrjálsan félagsskap er að ræða, svo sem um flutning í tiltekið sveitarfélag eða söfnuð, þar eiga menn, sem úr ganga að losna með öllu við allar félagskvaðir um leið og þeir losna við félagsréttinn, á líkan hátt og félagsskylda og félagsréttur flyzt yfir þá um leið og þeir flytja inn. En eigi slíkur félagi, þrátt fyrir úrgönguna að bera byrðar síns fyrri félagsskapar, þá verður hann að njóta réttarins að sama skapi.

Eg er sammála háttv. 4 kgk. þm. um það, að eignaafgang kirkjunnar ber ekki að telja annað en það, sem eftir verður þegar búið er að draga hæfilegt álag á kirkjuna frá. Það verður auðvitað að ætla fyrir því, svo að kirkjan sé í sómasamlegu standi. En einmitt þess vegna ætti háttv. þm. ekki að vera á móti breytingartillögunni, því að þá er séð fyrir því, að ákvæðið gæti ekki orðið kirkjunni til verulegra óþæginda.

Háttv. þm. Ísafj. vitnaði mjög í stjórnarskrána um það, að þjóðkirkjan ætti að njóta verndar hins opinbera. Það er rétt en stjskr. ætlast ekki til, að hún sé vernduð á hvaða hátt sem vera skal, enda fær kirkjan fulla vernd í hér um rædda átt með því að vera í ábyrgð þeirra manna er söfnuðinum heyra til, á hvaða tíma sem er. Gagnvart rétti kirkjunnar samkv. 48. gr. stendur og fullkomlega jafnfætisréttur einstaklingsins samkv. 46. gr. Það hefði háttv. þm. getað séð á upphafi næstu greinar eftir 45. gr. er hann vitnar í svo mjög. Frumvarpið leggur bann á trúfrelsi manna, samkvæmt stjórnarskránni. Það verður einn hlekkur á helsi því, sem sumum er svo gjarnt að „treysta“ þjóðkirkjuna með. Eg og háttv. meðflutnm. minn að breyttill. stöndum hér sem „protestantar“, við mótmælum slíku hafti á persónulegt frelsi manna og trúfrelsi.

Enn vil eg benda á það, að ef gæta ætti nokkurrar sanngirni, mætti ákvæði frumvarpsins ómögulega ná til annarra lána en þeirra, sem verða stofnuð eftir að lögin koma í gildi, því að þá geta menn þó varað sig á ákvæðinu. Hitt er óhæfa, að láta lögin ná til eldri lána, alveg sama sem að láta lög gilda fyrir sig fram. Það eru ófær rangindi að láta mann, sem ganga vill úr söfnuði, borga sinn hluta af skuldum kirkjunnar, eins þeim, sem hann ef til vill hefir mótmælt að yrðu stofnaðar og hinum, sem hann kynni að hafa stofnað til.

Hér er ekki að ræða um að halda tekjum undir kirkjuna, sem kirkjan á tilkall til, heldur þvert á móti um að hrifsa undir hana tekjur, sem hún á engan rétt til.