06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

160. mál, strandferðir

Benedikt Sveinsson:

Mér þykir það mjög undarleg ástríða, sem farin er að þjá ýmsa þingmenn hér í deildinni, að þeir vilja nú bola frá hverju málinu á fætur öðru með rökstuddri dagskrá. Það er mjög röng og ótilhlýðileg aðferð gegn jafn-sanngjarnlegum og þarflegum till., sem hér liggja fyrir, um bætur á strandferðunum, þar sem þeim er mest ábótavant. Það mundi að maklegleikum verða deildinni til ámælis, ef þessu máli yrði eytt með rökstuddri dagskrá og tel eg það hreina og beina skyldu deildarinnar að sýna því meiri viðurkenning en svo, að vísa því þannig á bug.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði, að efri deild hefði nú meðferðis þingsályktunartillögu um skipaferðir, sem mundi verða samþykt þar í dag og þótti mega þar við hlíta. En þar sem menn eru nú farnir að telja það móðgun við stjórnina, að bera fram þingsályktunartillögur, þá þykir mér ólíklegt, að efri deild taki upp þá þvermóðsku, svo stjórnholl sem hún er — og sé því óvarlegt af þessari deild að festa þar alt sitt traust. En ef svo færi nú, að efri deild leyfði sér að samþykkja einhverja slíka till., þá skil eg ekki, hvers vegna þessi deildin ætti að vera þeim mun einurðarminni, að hún þyrði ekki að stynja því upp, að stjórnin reyni að fá Thorefélagið — sem hefir mikinn styrk úr landssjóði — til að koma oftar við á nokkrum höfnum umhverfis landið, heldur en það hefir gert.

Þingið hefir nú haft þetta mál til meðferðar í nefnd um langan tíma og eytt til þess nokkru verki. Héðan af er það enginn kostnaðarauki fyrir þjóðina, þótt till. sé samþykt, engum tíma eytt til þess, en þá meiri von um einhvern árangur af henni. Vil eg því mæla sem bezt fram með þingsál.till.