18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

115. mál, guðsþakkafé

Flutningsm. (Jón Þorkelsson):

Eg hefi leyft mér að koma fram með þessa tillögu sökum þess, að sjóðum og gjafafé til guðsþakka hefir á ýmsan hátt verið stjórnað og varið öðru vísi en tilgangur hefir til verið í öndverðu. Eins og menn vita, hafa kristfé og kristfjárjarðir víða verið til hér á landi frá fyrri öldum. Lá þetta fé lengi undir stjórn biskupa og prófasta. Á 17. öld, þegar höfuðsmannavaldið var hér sem magnaðast, vildu höfuðsmenn ná í kristfén og leggja til Viðeyjarklausturs, en flytja þangað ómagana, sem þeirra nutu. Ekki náði það þó fram að ganga, því að biskupinn, sem þá var, Brynjólfur Sveinsson, var ráðríkur og lét ekki á sig ganga. Á 18. öld, þegar Harboe var hér, heimtaði hann skýrslur um fén og enn voru skýrslur heimtaðar 1820; þótti misjafnlega ganga um meðferð og stjórn fjárins. 1859 komu bænarskrár til alþingis víða af landinu, þar á meðal úr Austfjörðum, um kristfén og höfðu þær þann árangur, að nokkur þessi fé voru lögð undir umsjón sveitaratjórna 3. júní 1867. Þetta var gert að því er auðsætt virðist þvert ofan í anda og tilgang gefendanna. Meiningin var sú, að veita þurfamönnum guðshneysulaust styrk, er eigi gæti metist sem sveitarstyrkur. Nú er þetta fé notað allvíða að minsta kosti í sveitarþarfir, og þurfamönnum, er þess njóta þar með gerð hneysa með styrkveitingunni. Nú vita menn ekki með vissu, hversu mikið þetta fé muni vera frá fyrri og síðari öldum. Stendur svo í mörgum gjafabréfum, að féð sé lagt til framfærslu náskyldustum ómaga í ætt gefandans. Svo er í gjafabréfi Þorsteins lögmanns Eyjólfssonar 1386, er hann gefur sína beztu jörð, er hann telur, Grund í Svarfaðardal, til kristfjárómagaframfæris. Sama er að segja um kristfjárómaga í Hítardal, er vera skyldi af ætt Þorleifs lögmanns hreims, er uppi var í það mund, er konungsvald komst hér á. Enn var kristfjárómagi á Hvalsnesi af ætt Svarthöfða, sem þar bjó. Þórarinsstaðalegat eða Arnsteinslegat, sem fylgt hefir Hrunaprestakalli, var og gefið með sama fororði. Í Mýrasýslu voru þrætur um eina slíka jörð á 19. öld, hvort varið skyldi til hreppsnota eða ekki. Landstjórnin hefir verið mjög kærulaus í þessu efni og ólöglegt virðist það með öllu, að láta sveitarstjórnirnar hafa afskifti af þessu fé.

Tildrögin til þess, að eg ber fram þessa tillögu eru þau, að nefnd sú, er fráfarandi ráðherra skipaði til að íhuga meðferð Thorkilliisjóðsins, fal mér eftir samþykt á fundi að gera það. Það er eins og með þennan sjóð. Hann er gefinn til guðsþakka og skal ávöxtum hans varið til kenslu fátækum börnum í Kjalarnesþingi. Hefir stjórnarráðið úthlutað styrknum og afhent hann hreppstjórnunum, en þær notað hann að nokkru leyti til framfærslu fátækum börnum. Nú er barnafræðsla auk þess öll lögð á landssjóð og héruðin.

Það hefir ennfremur þótt bóla á því, að kristfjárjarðir væru bygðar óhæfilega lágt, kostajarðir fyrir eins ómaga framfæri, þótt afgjaldið að réttu lagi ætti að vera jafnvel tveggja ómaga framfæri. Þetta kom fram í bænarskránum 1859, og mér er sagt, að svo sé enn, t. d. um kristfjárjarðir í Austfjörðum, mestu kostajarðir: Fossvellir, Ketilsstaðir, Kóreksstaðir, (Grímsstaðir), Arneiðarstaðir, Sómastaðir og Búlandsnes og enn fleiri. Kristfé átti og ferjan á Jökulsá. Í Þingeyjarþingi voru kristfjárómagar á Grenjaðarstað og stóð fyrir Geitafell, Hóll í Höfðahverfi, Fagrabær, Presthvammur, Bakki á Tjörnesi og Grænavatn. Í Skaftafellssýslu voru þessar kristfjárjarðir: Breiðabólstaður og Keldugnúpur á Síðu, Dalbær, Uppsalir, og ómagaskylda á Stafafelli. Í Húnavatnsþingi: Hvammur í Vatnsdal og Hóll á Skagaströnd. Í Eyjafjarðarsýslu: Laugaland syðra, 5 hndr. úr heimalandi á Tjörn í Svarfaðardal, Núpufell, Grund í Svarfaðardal, sem áður er getið, Teigur, Fagraskógur, Kleif, Kristnes, Möðrufell, Björk, Þórisstaðir, Kroppur, Uppsalir. 15 hndr. í Auðbrekku, 15 hndr. í Saurbæ. Þyrfti að athuga þetta, þegar Saurbær kynni að verða seldur. Í Árnesþingi auk Þórarinsstaða, sem getið var: Kolsholt hálft og ómagaskyld í Villingaholti. Í Skagafirði: Ytra-Vallholt. Í Mýrasýslu: Hítardalur, sem getið var, en löngu mun kvöðin þar af fallin, og Ferjubakki; mun kvöðin einnig vera þar af fallin, því að á jörðum, er konungur tók undir sig, féllu niður slíkar kvaðir.

Eftir því sem nú hefir verið rakið, hefi eg komið með tillöguna til þess, að alt þetta mál verði rannsakað, bæði fornar gjafir og seinni tímagjafir. Það, sem hefir hingað til runnið í sveitarsjóðina, verður ekki hægt að krefja aftur. En fén má heimta, eftir því sem gjafirnar hafa verið til stofnaðar: fátækum þurfamönnum guðs til styrktar hneysulaust. Thorkillinefndinni þykir nauðsyn til bera að rannsaka þetta og hefir farið þessa leið, að snúa sér til þingsins, til þess að einhlítt væri, að málið næði fram að ganga og gangskör kæmist á það, því að rannsóknin mun verða svo mikil, að nokkurt fé þarf til. En ekki mun Thorkillinefndin taka neitt fyrir sinn starfa. Málið alt er svo merkilegt, að nauðsynlegt er að rannsaka meðferð og stjórn fjárins, og vona eg því, að till. nái fram að ganga, þar sem um nauðsynjamál er að ræða, er alt landið varðar.