05.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

124. mál, stöðulögin

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Eg hygg bezt að hafa sem fæst orð um þetta mál; það er svo skýrt og 1jóst, að í raun og veru gætu menn þegar gengið til atkvæða um það umræðulaust. Okkur flutningsm. þótti sjálfsagt að láta þessa tillögu koma fram um leið og stjórnarskrárfrv. væri afgreitt af deildinni. Svo sem mönnum er kunnugt, hefir tilvitnunin í stöðulögin verið látin óbreytt í 1. gr. frumv., og hefir það eingöngu verið gert af »taktiskum« ástæðum; menn greindi á um það við 1. umr., hvort betra væri að orða þessa grein um eða láta hana óbreytta, og varð hið síðara ofan á. En úr því að svo fór, þótti okkur flutningsm. sjálfsagt, að alþingi tæki það skýrt fram á annan hátt, að það teldi ekki stöðulögin bindandi fyrir Ísland; þess vegna höfum við látið þessa till. verða samferða stjórnarskránni. Í till. er vísað til mótmæla þeirra, er komu fram gegn stöðulögunum á alþingi fyrir 40 árum,

19. ágúst 1871. Í alþingistíðindunum fyrir það ár, er greinilega skýrt frá, hvað þá fór fram. Atkvæðagreiðslan um málið fór fram með nafnakalli og getur hver sem vill kynt sér, hverjir nýtir menn þá greiddu atkvæði með og móti.

Að svo vöxnu máli finn eg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efni þetta. Eg óska að eins að till. geti farið rifrildislítið til atkvæða, enda hygg eg flesta hér inni sammála um innihald hennar. Því hefir verið hreyft, að óþarfi væri nú að koma fram með slík mótmæli, því að millilandanefndin hafi á sínum tíma gert það. En ekki er góð vísa of oft kveðin, enda hefir komið fram krafa á þingmálafundum allvíða um land, um að endurnýja þessi mótmæli, og tjáir ekki að skella skolleyrunum við því.