05.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

124. mál, stöðulögin

Benedikt Sveinsson:

Mér finst tilhlýðilegt, að þingsályktunin verði samþykt í dag, þar sem hin háttv. deild einmitt fyrir rúmum hálftíma hefir afgreitt stjórnarskrárfrv. Engum kemur til hugar að Ed. muni gera breytingar á frv. að þessu leyti og virðist því í alla staði eðlilegt, að ályktunin sé látin fylgja frumvarpinu. Annars get eg ekki séð, að það sé »rökstuddu dagskránni« til málsbóta, að hún er stórorðari en till. Ályktunin mun áreiðanlega reynast áhrifameiri, þótt hún sé hóglegar orðuð en dagskráin. Það er mjög leitt, að menn skuli ekki allir geta orðið á eitt sáttir um þetta mál og fylgst að í atkvæðagreiðslu um það með einu samþykki. Í þessu efni má enginn flokkarígur komast að. Hér eigum vér allir sem einn maður að fylgja fram réttindum þjóðarinnar.

Eg vona nú að flutningsmenn »dagskrárinnar« taki hana aftur og greiði síðan atkvæði með tillögunni sem einlægir og sannir föðurlandsvinir.