19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

131. mál, landhelgisgæsla

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Það var komið nærri þessu máli, sem hér liggur fyrir, í umræðunum um fjárlögin á dögunum, og þær umræður eru tilefnið til þess, að þessi till. er hér fram komin, það er að segja það af umræðunum, sem hneig að þeim hluta af botnvörpungasektunum, sem ætlast var til að rynnu í ríkissjóð Dana.

Þessi till. er ekki nein títuprjónastunga í Dani, heldur en fjárlagaákvæðið, sem á undan er gengið, það sýnir hún sjálf. Eg held að ræða Neergaards, sem við, háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og eg, höfum látið fylgja hér með kafla úr, sýni það svo ljóslega, í hverju skyni þetta skip er látið vera hér við land, að Íslendingar geti ekki að óskertum sóma sínum goldið neitt til þess, eins og það er skilið frá þeirri hlið, það er að segja sem storkunarfleyta á oss Íslendinga. En jafn skjótt sem Danir viðurkenna drottinvald vort yfir sjóleiðum hér og landhelgi, þá er sjálfsagt að gjalda þeim fyrir strandgæzluna, svo framarlega sem þeir vilja þá hafa hana á hendi áfram, og þá má líta á það, hvort vér viljum heldur sjálfir taka að oss varnirnar, eða semja um það við Dani eða aðra. Þessi tillaga er því fram komin til þess, að láta þá yfirlýsingu fylgja þeirri synjun um styrk til varðskipsins, er vér samþyktum hér á dögunum, að vér séum fúsir til þess, ef þeir kannast við vorn rétt, að láta þá koma fyrir strandgæzluna annaðhvort samning um veiðirétt, sem þeir hingað til hafa tekið sér í leyfisleysi, eða þá peninga. Þetta er til þess að sýna Dönum, að við neitum þeim ekki um þetta fé af óvild, heldur til þess að mótmæla skoðun þings þeirra á rétti okkar, og til þess að sýna góðan vilja vorn til samninga við þá, um leið og vér gætum þjóðarsómans.

Brtill. á þgskj. 662 er eingöngu til skýringar. Það er ekki heppilegt, að orða þetta svo, að Ísland skuli leggja fram fé, því að eins og eg sagði áðan, getur hugsast, að í öðru yrði borgað, en þá væri að taka það til íhugunar, hvernig greiða skyldi.

Hugsa eg svo, að till. þurfi ekki mikillar umræðu við.