19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (2599)

131. mál, landhelgisgæsla

Hannes Hafstein:

Eg ætla ekki að vekja hér umræður, en að eins gera grein fyrir atkvæði mínu.

Það er nú komin fram skýr yfirlýsing um það frá háttv. flutningsm. (B. J.), að hér er að ræða um handaþvott af hálfu þeirra manna, sem greiddu atkv. með því hér á dögunum, að alþingi skyldi ganga frá loforði sínu Þessi þingsál.till er því okkur óviðkomandi, sem ekki gerðum okkur seka í því, og vildi eg því helzt ekki virða hana þess að greiða atkvæði um hana. Þó vil eg ekki láta telja mig til meiri hl., svo að ef hæstv. forseti tekur ekki þessa ástæðu mína gilda, þá verð eg að greiða atkv. móti till., og það því fremur, að ef br.till. yrði samþykt, þá verður tillagan í heild sinni hreinasta ómynd. Það yrði þá svo, að þegar Danir hafa lýst því yfir, að landhelgisgæzlan sé eingöngu íslenzkt sérmál, þá skuli Íslendingar taka það til íhugunar!!, hvort þeir eigi að borga nokkuð til strandgæzlunnar eða ekki! Það getum við gert, hvenær sem vera skal, þótt engin slík viðurkenning liggi fyrir. En sé landhelgisgæzla viðurkent eingöngu sérmál, þá er það sjálfsagt, að við eigum að bera allan kostnaðinn; þá þarf engrar sérstakrar »athugunar« við um það efni. Að ætlast til að Danir verji okkur »gratis«, þótt öllu sambandi sé slitið, er svo aumingjalegur kotungshugsunarháttur, að menn skyldu ekki hafa búist við slíku hjá þessum herrum, sem þykjast vera svo sjálfstæðir og sjálfum sér nógir.