06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

138. mál, sambandsmálið

Jón Magnússon:

Eg ætla ekki að fara að ræða málið, og það skal ekki verða mér að kenna, ef deilur spretta af því sem eg segi. Að eins vil eg lýsa því yfir, að heimastjórnarmenn þeir, er hér sitja í deildinni munu greiða atkv. á móti tillögunni. Ástæðurnar til þess að greiða ber atkvæði á móti till. eru að minni skoðun þessar: Í fyrsta lagi er það gersamlega þýðingarlaust að samþykkja tillöguna; um það er ekki hægt að deila. Ráðherra Íslands hefir ekkert vald til að láta málið koma fyrir ríkisþing Dana, og það er engin von um, að hann geti komið því til leiðar, að það verði tekið þar fyrir. Fyrv. ráðherra (B. J.) reyndi það, en fékk afsvar. Það eru engin líkindi til, að öðrum tækist nú betur, þvert á móti.

Í öðru lagi er frumvarpið frá þinginu 1909 ekki þannig úr garði gert, að það sé að vorri skoðun aðgengilegt.

Og loks má geta þess, að þau lög, sem þingsályktunin vill láta ráðherra Íslands koma með til ríkisþingsins danska, eru ekki til, frumvarpið er fallið niður, þar sem lögin hafa ekki hlotið konungsstaðfestingu fyrir þetta þing. Ef hefði verið alvara í þessu, þá hefði átt að samþykkja lögin aftur á þessu þingi, en þar sem þau eru fallin niður, þá sé eg ekki að það sé heimtandi, að þau séu tekin fyrir á ríkisþinginu. Það er nefnilega engin vissa fyrir því, að þau yrðu samþykt af alþingi, þótt þau kæmu aftur samþykt af ríkisþinginu, nema alþingi væri áður búið að binda sig svo, að það gæti ekki tekið það aftur, eftir því sem fram kemur hér á þinginu á síðustu tímum.