06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

138. mál, sambandsmálið

Bjarni Jónsson:

Eg vil leyfa mér að lýsa mínu áliti á þessu máli. Háttv. þm. Vestm. (J. M.) talaði í nafni heimastjórnarmanna, og áleit tilgangslaust að samþykkja þetta. Hann sagði, að fyrv. ráðh. (B. J.) hefði fengið afsvar, en það er ekki áreiðanlegt fyrir það, að sá næsti fái það einnig. Það er alls ekki að vita, að Danir eða þeirra núverandi stjórn sé sama sinnis nú og þá. Það hefir komið fyrir, að menn hafa sannfærst, og þó það ætti sér ekki stað nú, þá væri það ómaksins vert að sjá hug þeirra.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) bendlaði þetta mál við vantraust á fyrv. ráðh. (B. J.), til þess að spilla fyrir því við hans flokksmenn. En í þessu atriði á við hann: »Ultra posse nemo obligatur«. Svo lýsti hann því yfir, að flokkur hans mundi ekki samþykkja þetta. Það getur vel verið að svo sé, en eg veit þó, að margir í þeim flokk mundu helzt vilja þau sambandslög, sem samþykt voru á síðasta þingi, ef hægt væri að fá því framgengt (Mótmæli frá þm. Vestm. (J. M.) og 1. þm. Eyf. (H. H). Það er mitt traust á sumum flokksmönnunum, sem eg segi með þessu. Svo sagði hann, að lögin væru fallin niður, þar eð þau hefðu ekki náð staðfestingu fyrir þetta þing. Það getur vel verið að svo sé, en það gerir engan mun. Ef þeir samþykkja þau, þá mun engin fyrirstaða hér verða fyrir því, að þau verði samþykt. Öll sú mótbára, sem var móti þeim á síðasta þingi var af því, að menn voru hræddir um að þau mundu ekki ná fram að ganga. Annars hefði ekki ein einasta sál verið á móti þeim.

Það voru að eins þessar athugasemdir, sem eg vildi koma fram með.