22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

140. mál, gjöf Jóns Sigurðssonar

Flutnm. (Jón Þorkelsson):

Eg álít, að ekki sé þess þörf að fara mörgum orðum um þetta mál. Það er upplýst með tillögunni sjálfri, hvernig í því liggur. Nefndin, sem kosin hefir verið til þess að dæma um ritgerðir, sem sæma ætti — eða sæma ekki — verðlaunum af »Gjöf Jóns Sigurðssonar« fann til þess, að not verða ekki að sjóðnum, því síðustu 10 árin hefir enginn sent verðlaunanefndinni ritgerðir. Á þennan hátt hefir sjóðurinn vaxið, og er það ekki nema gott, en hann hefir á þennan hátt ekki náð tilgangi sínum, því tilætlunin með sjóðnum er, að hann geri gagn. Þess vegna hefir verðlaunanefndin, sem kosin var á síðasta þingi, skotið því til alþingis í álitsskjali sínu, að breyta reglugerð sjóðsins í þá átt, sem eg hefi farið fram á í tillögum mínum. Það virðist svo sem menn séu ragir við að leita verðlauna af sjóðnum fyrir rit sín. Þess vegna hefir nefndin stungið upp á því, að reglugerðinni sé breytt þannig, að sjóðnum sé ekki eingöngu varið til verðlauna, heldur einnig til þess að gefa út þessi rit og til þess að styrkja útgáfur merkilegra heimildarrita. En öll skulu rit þessi lúta að sögu Íslands, bókmentum þess, lögum, stjórn og framförum.

Eg skal geta þess um viðaukatill., að hún breytir orðinu »Landshöfðingi« í upphafi 4. gr. í »Stjórnarráð Íslands«, af því hitt á ekki lengur við. Þetta er gert til þess, þegar konungsstaðfesting er fengin á reglum um »Gjöf Jóns Sigurðssonar«, að þá megi færa þessar breytingar inn í meginmálið og gefa þær svo út sem heildartexta.