22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

140. mál, gjöf Jóns Sigurðssonar

Hannes Hafstein:

Eg tók svo eftir, að háttv. flutningsm. (J. Þ.) segði, að tillaga sín væri í fullu samræmi við uppástungu verðlaunanefndarinnar. En mér virðist ekki vera fult samræmi þar á milli. Ef eg má lesa upp tillögu verðlaunanefndarinnar á þgskj. 622 þá geta háttv. deildarmenn heyrt, hvað sú nefnd leggur til; tillagan hljóðar svo:

»Jafnframt leyfum vér oss að skjóta því til alþingis, hvort eigi þyki ástæða til að rýmka nokkuð um veitingaskilyrðin í 2. gr. Reglnanna um »Gjöf Jóns Sigurðssonar« 24. ág. 1881, svo sem t. d. að það væri heimilt, þegar engin ritgerð bærist, sem þætti verðlaunaverð, að veita nokkuð til útgáfu vel saminna rita eða merkilegra heimildarrita viðvíkjandi sögu Íslands og bókmentum, lögum þess, stjórn og framförum«.

Þetta verður ekki skilið öðru vísi en svo, að því að eins, að verðlaunanefndinni berist engar ritgerðir, sem séu verðlaunaverðar, þá megi verja vöxtum sjóðsins til þess að styrkja útgáfu merkra heimildarrita, sem snerta sögu Íslands o. s. frv. En í þessari till. hv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), eins og hún liggur fyrir, er þetta sett jafnhliða. Eftir henni má verja fénu eingöngu eða jafnframt til að styrkja útgáfur heimildarrita, jafnvel þótt verðlaunaverðar ritgerðir liggi fyrir. En tilætlun verðlaunanefndarinnar hefir þó verið, að verðlaun fyrir ritgerðir sé látin ganga fyrir hvorutveggju hinu: að styrkja útgáfur slíkra rita og að styrkja útgáfur gamalla heimildarrita.

Eg vil alls ekki geta þess til, að tillagan sé orðuð þannig með vilja, til þess að hér sé fremur »innhlaup« fyrir þá menn, sem oft þurfa á fé að halda til þess að gefa út gömul heimildarrit. En hitt er víst, að þingsályktunartillögunni ber ekki saman við tillögur verðlaunanefndarinnar.