05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

145. mál, útflutningsgjald

Jón Magnússon:

Eg vil benda mönnum á aths. við 1. lið, þar sem á að skylda stjórnina til að koma með lög, sem tolla umhleðslu milli skipa inni á höfnum. Eg held að þetta sé tæplega ráðlegt og að öðrum þjóðum mundi þykja þetta nokkuð nærgöngult þeim rétti, sem þær hafa alment til þess að sigla frjálst um höf og hafnir. Þetta er auðvitað nokkuð undir því komið, hvort þessi starfsemi er skoðuð sem partur af fiskiveiðunum sjálfum, eða þá eingöngu sem vöruflutningur. Ef hið síðara verður ofan á, þá efast eg um, hvort hægt er að leggja toll á vöruna samkvæmt gildandi reglum. Hennar er ekki aflað á Íslandi, því að það er gert ráð fyrir að hennar sé aflað utan landhelginnar. Og hitt vitum vér, að aðrar þjóðir reyna að gera skipum, sem inn á hafnir koma, sem allra léttast fyrir. Þess vegna eru hvarvetna, er tæki eru til, gerðar fríhafnir, til þess að menn þurfi ekki að vera hræddir um, að tollmenn komi og hremmi skipin og taki toll af þeim, þó að þau komi á höfn. Þó að franskt fiskiskip komi inn í höfn og láti þar afla sinn yfir í annað frakkneskt skip, þá er valt að telja það skipið, er við aflanum tekur, til útgerðarinnar og eg er ekki viss um, nema hlutaðeigendum þætti svona ákvæði svo leið, að þeir hættu alveg að hafa þessa aðferð og þá missir landið tekjur sínar og sérstaklega skaðast hafnarsjóður á því. Það er ógn lítill munur á því og hinu, ef skip kemur snöggvast inn á höfn og heldur fiskinum í sér og getur þá enginn heimtað gjald af því. Þetta væri sama sem að banna mönnum hafnir, og eg held, að það væri í meira lagi varasamt.