02.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

157. mál, vog og mælir

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Það kom fram í ræðu hér í dag, að hér kæmi fram of margt af ómerkum þingsályktunartill., — að vísu eru ekki nærri allir deildarmenn nógu glöggir á, hvað merkilegt er eða ekki — og því finn eg ástæðu til að geta þess, að í þetta skifti kemur merkileg tillaga. Eg hefði kosið, að sá þm., sem þetta sagði, og flest þykist vita flestum betur, hefði talað nú, en nú er eg flutningsmaður, og verð því að segja að upphafi nokkur orð.

Það getur nú verið, að sumum mönnum sýnist þetta ekki stórt atriði í sjálfu sér og hafi lítið tekið eftir því. En það er þá ekki úr vegi, að gefa dálítið yfirlit yfir það, hvernig þessu efni hefir verið varið hér í landi, og það mun þá sjást, að þetta er stórt mál, rétt metið, þar sem um það er að ræða, að setja skorður fyrir því, hvað sé rétt vog og mælir í viðskiftum manna á landi hér.

Þegar á þjóðveldistímanum hafa menn fundið þörf á ákvæðum um þetta efni. Hafði þá ríkið sjálft í sinni hendi réttingu vogar og mælis, og eru til gömul ákvæði um stikumál frá því um 1200. Var kvarði merktur á kirkjuvegg á Þingvelli, og eftir honum áttu svo allirað rétta stikur sína. En til þess að gera mönnum hægra fyrir, þá var og ákveðið að merkja stikulengd á hverri graftarkirkju. Á Þingvöllum er enn til sýnis stikumál á steini, þótt óhirt hafi verið um marga mannsaldra. Var eg þar við og sá á fyrir nokkrum árum, þegar það var mælt, og virtist sem það mundi varla vera hin elzta, íslenzka alin, heldur nær Hamborgaralin, sem hér tíðkaðist á 15. og 16. öld og lengi síðan. Lögrétting er nefnd þá þegar, og í Jónsbók er svo fyrir mælt, að »sýslumaðr hverr skal rétta sína pundara, stiku ok mælikeröld«, en bændur svo eftir þeim í hverri sýslu (Kaupab. kap. 28 ), og jafnframt er þess getið, að »eigi eru allir bændr skyldir mælikeröld at eiga«. En »pundarar ok mælikeröld skulu liggja á Þingvelli undir lögmannslási«. Þessi ákvæði hafa nú staðið þangað til í byrjun 17. aldar. 1619 er svo ákveðið, að pundari og reizla skal vera á Bessastöðum eftir Kaupinhafnarvigt, og skal eftir þeim rétta vog í öllu landinu. Við þetta sat langt fram á 18. öld, og var fylgt jöfnum höndum bæði íslenzkri alin og Hamborgaralin. En þetta var tekið af Íslendingum með tilskipun 30. maí 1776, og skipað síðan danskt mál með tilskipun 10. jan. 1778. Áður hafði þó jafnvel verið fyrirskipuð lögrétting á hinni gömlu íslenzku alin á »justerkamrinum« danska, rentuk.brj. 7. maí 1755, og frá 1761 er bréf fyrir því, að íslenzkur kvarði jústerist af Hofagent Ryberg, og einnig stendur það í bréfi frá 12. febr. 1777, að lýsistunnur til íslenzkrar verzlunar jústerist á »jústerkamrinum«. En þrátt fyrir þetta urðu menn ekki afvanir Hamborgaralininni, og með kgbr. 1781 er hún harðbönnuð, og skipað að senda verzlunarkvarðana til Kaupmannahafnar. Aðalákvæðin um vigt og mæli á Íslandi eru frá 18. júní 1784, þar sem ákveðið er, að lögrétting skuli hér vera hin sama og annarsstaðar í Danakonungs ríkjum, sem sé heyra undir staðarvaldið í Kaupmannahöfn. Sýslumenn máttu eiga smærri mæla og rétta eftir þeim, og senda þá til Hafnar, þegar þeir slitnuðu, og var þar gert að þeim og þeir smíðaðir upp. Frummál áttu að vera til hjá sýslumönnum og fylgdu þau meðal annars lengi vel bæjarfógetadæminu hér. En erfitt mun vera að hafa upp á því nú, og geta legið til þess ýmsar ástæður, Nú er orðin breyting á vog og mæli hjá oss, og eins í Danmörku. Við höfum tekið upp metra og litra, ef eg kann að nefna það. Danir með fleirum þjóðum gerðu samninga um þetta efni í París 1875, og er því þá þannig varið, að þau ríki, sem halda uppi kostnaðinum við »internationalt Bureau« í París, jafna honum á sig að tiltölu við fólksfjölda.

Ár 1907, hinn 4. dag maímánaðar, gefa Danir út lög um metramál. 5. gr. þeirra laga hljóðar svo:

»Justervæsenet bestyres af en af Kongen udnævnt Justerdirektör under Tilsyn af Indenrigsministeren, der nærmere bestemmer, paa hvilke Steder i Landet, der skal forefindes Udsalg og Oplag af justerede Maale- og Vejeredskaber«.

Og 7. gr. hljóðar:

»Fra dette Tidspunkt (?: 3 ár frá 4. maí 1907) justeres ikke længere Maale- og Vejeredskaber efter det nugældende System undtagen til Brug for Island og de Vestindiske Öer, hvorimod Omjustering af saadanne Redskaber endnu kan finde Sted«.

Íslendingar geta án alls efa lögrétt vogir sínar og mæla, að öllum fornspurðum. Það mál tilheyrir verzlunarlöggjöfinni, sem er sérmál.

Hinn 7. des. 1907 gefa Danir út reglur um skammstafanir í metramáli og 14. maí 1909 lög um laun jústeringarembættismanna hinna hærri. 12. nóv. 1909 kom út reglugerð fyrir justerstofnun þessa. Er hún ríkisstofnun. Árið 1907 lagði stjórnin fyrir alþingi frv. um metramál hér á landi. Var það samþykt og náði staðfestingu 16. nóv. s. á. í þeim var ekkert talað um lögrétting á vog og mæli. 27. des. 1909 kom út konungleg auglýsing um það, að metralögin kæmu til framkvæmda 1. jan. 1910.

Það getur haft verklega þýðingu og verið atvinnuatriði að hafa lögrétting á vog og mæli hér í landinu sjálfu, og varla hygg eg beykisiðn vera mögulega eða að gagni koma meðan svo er, enda er mér svo sagt af sérfróðum mönnum. Hygg eg ekki, að það þurfi útskýringar við. Nú brennimerkja ekki fógetar slík ílát lengur, heldur verður að fá lögrétting á þeim í Kaupmannahöfn. Meðan svo er, getur engin laggaraiðn þrifist hér, því ódýrara er að kaupa hlutina beint frá Höfn heldur en kosta flutning á þeim héðan og þangað til lögréttingar og svo heim aftur.

hv. ráðh. (Kr. J.) »akti« ekki þessa áskorun skil eg ekki. Hann er of skynsamur maður til þess, enda förum við ekki fram á annað en að stjórnin íhugi þetta mál og geri svo væntanlega nauðsynlegar ráðstafanir, sem við verður komið. Er það allilt að þurfa að leita til útlanda til að fá sér lögrétta koppa eða kyrnur eða kvarða lítinn. Ganga má að því vísu, að áhaldakaup yrðu nokkuð dýr, en rekstur ekki. Hér er maður á landi þessu, sem semur vörumerkjaskrá og hefir að launum, ef mig minnir rétt, 360 kr. Ekki er oss mögulegt að segja um það, hvort reksturskostnaður við lögréttingu á vog og mæli yrði meiri, en óhætt er að fullyrða, að hann mundi ekki setja landið á höfuðið.