06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

166. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Jón Sigurðsson:

Eg hafði búist við, að eftir því sem hæstv. ráðherra (B. J.) tók í mál þetta á síðasta þingi, mundi hann gera eitthvað til þess að hrinda því áleiðis, en það hefir hann ekki gert. Hæstv. ráðherra sagði á síðasta þingi: »Hins vegar hefi eg ávalt verið þeirrar skoðunar, þegar eg hefi hugsað um þetta mál, að æskilegast væri að með almennri atkvæðagreiðslu væri leitað atkvæða um málið, því að þótt komið hafi fram meira og minna ákveðnar skoðanir um þetta mál á meira eða minna velsóttum þingmálafundum, þá tel eg það ekki nægilegt í þessu efni«. Að vísu verður slíkt stórmál og þetta ekki leitt til lykta á örstuttum tíma, en hæstv. ráðh. (B. J.) hefði þó bæði átt og getað undirbúið það. Ef hann hefði viljað slá sér upp og sýna að hann væri »radik..l« hefði hann átt að skipa fyrir um almenna atkvæðagreiðslu í máli þessu og greiða þannig eitthvað fyrir því. Kostnaðurinn við slíka atkvæðagreiðslu hefði ekki orðið mikill og þó að ekkert fé hafi verið veitt til þessa kostnaðar á síðustu fjárlögum hefði mátt veita það eftir á. Hæstv. ráðh. (B. J.) hefir veitt eins mikla fjárupphæð, enda þótt hún hafi ekki verið heimiluð á fjárlögunum. Aðalatriðið er að hann hefði átt að gera eitthvað í máli þessu, en hann hefir alls ekkert gert og hefði verið rétt að bæta því á sínum tíma á syndaskrá hans.