06.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

140. mál, gjöf Jóns Sigurðssonar

Jón Þorkelsson:

Eins og háttv. neðri deildarmenn muna, þá bar eg fram fyrir nokkru tillögur um breyting á reglum fyrir „Gjöf Jóns Sigurðssonar“, sem gengu í þá átt, að rýmka nokkuð ákvæðin um, hversu verja mætti vöxtum af þessum sjóði, sem er leifar af eigum þeirra hjóna Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar konu hans. Eg bar þessar tillögur fram í samráði við nefnd þá, sem kosin var hér á þingi 1909 til að dæma um rit til verðlauna úr þessum sjóð, og sem í voru ásamt mér þeir Hannes Þorsteinsson alþm. og prófessor Björn Magnússon Ólsen. Það var einróma álit okkar, að það bæri að rýmka um reglur sjóðsins þannig, að þegar ekki væru fyrir hendi verðlaunaverðar ritgerðir, sem óskað væri verðlauna fyrir, þá mætti styrkja útgáfur annara rita, sem ekki væri leitað fyrir verðlauna og að ennfremur mætti styrkja útgáfur heimildarrita um bókmentir, löggjöf og sögu landsins. Þetta var samþykt í neðri deild eins og kunnugt er, en efri deild feldi þetta síðasta ákvæði niður. Það sem vakti oss nefndarmenn til athuga hér um á þeim fundi, sem talað var um þetta mál, en þá var nýkomin beiðni til alþingis um 500 kr. styrk til að gefa út merkustu bréf Jóns Sigurðssonar sjálfs — var einmitt það, að oss fanst það maklegt, að þessi sjóður, minningarsjóður Jóns Sigurðssonar, gæti hlaupið hér í skrápana og stutt útgáfu bréfanna. En samkvæmt reglunum var það ekki hægt, því að úr honum má ekki veita nema fyrir vísindalegar ritgerðir, sem beðið er um verðlaun fyrir. Oss þótti því sanngjarnt og nauðsynlegt að rýmka um þessi skilyrði á þann hátt. sem samþykt var hér í háttv. neðri deild. Eg skil nú öldungis ekkert í því, hvers vegna hv. efri deild hefir strikað út þann liðinn, sem varð til þess að vér lögðum til að reglunum væri breytt. — Í sambandi við þetta vil eg leyfa mér að taka það fram, að þó að nú verði gefið út mikið af bréfum Jóns Sigurðssonar í ár, þá getur það komið fyrir að það verði gefið út meira. Síðar þarf og að líkindum að gefa út ýms merk skjöl, sem snerta starfsemi Jóns Sigurðssonar, bæði sem vísindamanns og stjórnmálamanns. Það yrði því að eins hægt að gera á kostnað þessa sjóðs, að skilyrðum verði breytt, svo að styrkja megi útgáfu slíkra rita. Mér finst þessar breytingar væru svo sanngjarnar, að eg skil ekki, hvernig efri deild fór að taka svona í einróma álit vor allra nefndarmanna. Eg álít tillögurnar alveg sjálfsagðar. Sjóðurinn hefir staðið gagnslaus í 10 ár. Það var tilætlunin með sjóðnum að hann gerði gagn, vöxtunum af honum yrði varið til nokkurra nytja, og eg vona að háttv. þingmenn skilji, að allar þessar tillögur stefna til gagns fyrir bókmentir, sögu og löggjöf þjóðarinnar, og til þess að sjóður þessi geti orðið til sem mestra nytsemda í framtíðinni.