20.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

79. mál, strandferðir og millilandaferðir gufuskipafélagsins

Gunnar Ólafsson:

Eg hefi orðið þess var, bæði í þessari háttvirtu deild og eins í háttvirtri neðri deild, að einstakir menn hafa látið illa yfir því að mikið sé borið fram af þingsályktunartillögum, og telja að þetta vopn á stjórnina sé notað um of.

Eg skal ekki deila um það, það má of mikið að þessu gera sem öðru, en hins verður að gæta, að þegar eitthvað fer aflaga, verður maður að snúa sér þangað, sem von er um að hjálp fáist. Í þessu máli hafa viðkomendur snúið sér til landstjórnarinnar, en því hefir hún mér vitanlega ekki svarað.

Eg skrifaði stjórnarráðinu ásamt öðrum háttv. þingmanni fyrir tveim vikum og spurðumst við fyrir um, hvort sama skip yrði látið ganga aftur í ár fyrir Suðurlandi, sem þar gekk í fyrra, en ekkert svar hefir fengist.

Skaftfellingar hafa kvartað yfir því, að skipið væri alls kostar ófullnægjandi, en þeim kvörtunum hefir ekki verið sint.

Síðasta ráðið er þá að snúa sér til þingsins, að það skori á stjórnina að taka kröfur þessar til greina.

Mörgum hér í deildinni er kunnugt, að gufuskipið Perwie, sem hafði umræddar strandferðir í fyrra, er með öllu óviðunandi. Það var aldrei til þess ætlað og ekki til þess fallið. Þess má geta, að það

hefir alls ekkert farþegarúm. Í þeim klefa, sem kallaður er 1. farrými, komast fyrir 2 eða 3 menn eða þar um bil. Um annað farrými er ekki að tala. Hola nokkur í lestinni hefir verið kölluð annað farrými.

Eg kom út í þetta skip í fyrrasumar; sá eg þá holu þessa í lestinni, sem kallað er annað farrými, og var þar markað fyrir rúmfletum. Voru þar bundin naut í kring um þetta 2. farrými, sem áttu að fara með skipinu.

Eg skil ekki að nokkrum manni geti þótt þetta boðlegt. Hér við bætist, að skip þetta er algerlega ganglaust. Fer ekki harðara en róðrarbátur.

Skipstjórinn hefir sagt, að það mesta sem hann gæti pínt skipið áfram væri 7 mílur á vökunni, og það í blæja logni. Blási aftur á móti, getur það vel rekið aftur á bak eftir þessu að dæma.

Það er líka langt frá að vera hættulaust að vera með skipinu, þar sem það vantar svo mjög útbúnað, eða hvar ætti að láta fólkið í vondum veðrum og sjógangi, þegar það getur eigi hafst við á þiljum uppi?

Eg hefði samt ekki um þetta fengist, ef skift hefði verið nú um skip, og ekki von á þessu sama aftur. En þar sem sýnilegt er af áætluninni, að þetta skip á að vera áfram, er ekki hægt að þegja lengur; það verður að gera kröfur um að hér sé bætt úr.

Raunar stendur í athugasemdum við áætlunina, að ef til vill verði annað skip haft til Suðurlandsferðanna, en svo stóð einnig á áætluninni í fyrra, að mig minnir, og er því ekki neitt á þessu að byggja.

Enn er margt ótalið, sem ábótavant er við þessar Suðurlandsferðir. Í fyrra kom það fyrir, að skipinu var stýrt í aðrar áttir, en það átti að fara. Svo var það til dæmis eitt sinn, að þann dag, sem það átti að fara héðan austur um land, að þá fór það upp í Borgarfjörð og dvaldi þar, eða var orðið viku á eftir áætlun þegar það kom til Víkur. Þetta mun þó ekki vera skipstjóranum að kenna; og yfir höfuð var framan af sumri ekkert skeytt um áætlun.

Um leið og annað skip fengist, verður að eiga stjórnina að með það að láta skipið virða áætlunina. Það er mjög bagalegt, þegar ekki stendur neitt heima um komu skipsins.

Eitt atriði er það þessu viðvíkjandi, er skipi er ætlað eingöngu að koma á þessar brimahafnir, að áætlunin verður að vera rúm.

Skip verður að geta staðið við svo sem hálfan sólarhring til þess, að geta leitað lags með upp- og framskipun, án þess að skipstjóri þurfi að láta sér óðslega. Þetta hefir raunar ekki eins mikla þýðingu og hitt, en þó til verulegra bóta, að skipstjóri geti verið rólegur. Þegar svo áætlunin er nokkuð rúm, má hafa styttri dvalartíma á endastöðvum.

Þá er eitt atriði, sem eg vildi minnast á. Eins og menn muna, hafa Skaftfellingar fengið löggilta tvo ósa, sem þeir hafa hug á að koma vörum sínum að, og er því farið fram á, að þetta skip, sem strandferðirnar annast, komi nokkrum sinnum við í Skaftárósi, til dæmis eina ferð í maí, eina í júní og eina í júlí. Þetta er sem kunnugt er bezti tími ársins og þá sjódeyður.

Til þessa hefir ekki komið beinlínis enn, en eg býst við að menn fari nú að undirbúa sig til að taka á móti vörum þarna. Eg get þessa til athugunar, ef hæstvirt stjórn vildi taka tillit til þessa í framtíðinni.

Viðvíkjandi strandferðunum á þessu svæði skal eg ekki fara fleiri orðum, þar sem eg vænti að málið verði athugað í nefnd, sem hefir þess háttar mál til meðferðar.

Þá er einn liður í þingsályktunartillögunni um það, að landstjórnin hlutist til um að millilandaskip Thorefélagsins komi oftar við í Vestmanneyjum en þau hafa gert. Í augum þeirra manna. sem minst þekkja til, er það ekki vel þakkað, að skipin séu að tefja sig á koma til eyjanna.

En þegar gætt er að, hve mikill flutningur er þangað og þaðan, þá sjá menn að sjálfsagt er að skipunum sé gert að skyldu að ferma og afferma þar, sem á öðrum höfnum. Menn finna til þarfanna meir og meir eftir því sem viðskiftin aukast og vörumagn.

Sérstaklega er kvartað yfir því, hve Thoreskipin hafa vanrækt að koma til eyjanna, eftir að þau fengu landsjóðsstyrkinn. Þau vanræktu það raunar eins áður en þau fengu styrkinn, en þá voru þau og áttu að vera sjálfráð, en nú síðan hefir óánægjan vaxið að mun. Menn ætlast til að skip þau sem hafa fast tillag úr landsjóði fylgi áætlun og leyti lags um að gera skyldu sína.

Mönnum þykir óhæfa að skip, sem kemur að nóttu til eyjanna með flutning, að þau geri boð á þann hátt sem Sterling og fleiri skip gera frá því félagi, að sé varan ekki sótt samstundis, þó um hánótt sé, þá fari þau strax. Þau koma t. d. kl. 11 að nóttu og senda þá þau boð í land, að sé ekki búið að taka vörurnar fyrir kl. 4, þá sé skipið farið, og er þessu svo framfylgt.

Menn geta ekki unað við þessar búsifjar. Nauðsynin heimtar, að mönnum gefist kostur á að ná í land vörum sínum og koma því frá sér, sem senda þarf, en með slíku atferli er það ógerlegt og Eyjabúar vilja alls ekki þola þessa aðferð lengur Þeir líta svo á, að þegar skip hefir tekið eitthvað til flutnings, þá beri því að skila flutningnum þar í Eyjunum eins og annarstaðar, og að sjálfsögðu krefjast þeir þess að þau skip, er styrk fá úr landsjóði, hafi fasta áætlun til Eyja.

Eg tala hér að eins um Thorefélagskipin, en ekki skip sameinaða gufuskipafélagsins, því þau hafa reynst miklu liðlegri.

Eg segi ekkert um, hvort þetta er útgerð skipanna eða skipstjórunum að kenna, getur enda verið báðum. En eitt má benda á, að þegar forstjóri útgerðarinnar var með Sterling í fyrra sumar í góðu veðri, þá ætlaði maður héðan til Eyja með skipinu, en því var neitað þrátt fyrir ítrekaða beiðni og var mest kent forstjóranum; hann vildi ekki tefja skipið með því að koma til Eyja eða taka þangað póst, svo sem skylt var. En skipið fór austur með landi og á milli eyjanna og til Austfjarða með forstjórann.

Þetta er nú eitt dæmið.

Einu sinni kom Ingólfur við í Vestmannaeyjum, það var í október minnir mig, og var beðinn að taka flutning, en svaraði, að hann sæi ekki ástæðu til þess, hann fengi nógan flutning annarstaðar. Þetta getur ekki kallast liðleg framkoma, og mætti nefna mörg fleiri dæmi. Sömuleiðis kemur það oft fyrir, að þessi skip fara fram hjá Eyjunum í góðu veðri og að ástæðulausu, án þess að hirða um að taka póst eða skila. Eg gæti sagt frá mörgum fleiri dæmum til að sýna það, hve réttmæt sú krafa er, að ráðin sé bót á þessu. Þetta er síðasta leiðin, að biðja stjórnina að kippa þessu í lag, eins vel og hægt er. Það verður að teljast sanngjarnt, að skip, sem fara á milli landa, og hafa flutning til Vestmannaeyja, séu skyld að skila honum og skyld til að flytja póst frá og til Eyja. Afgreiðslumaður getur strax sagt, hvort líkur séu til að megi losa skipin, og ef það ekki er hægt, þá getur skipið farið strax aftur. Ástandið er óþolandi, eins og það er nú, og verður að ráðast bót á því. Eitt Thoresskipið, „Ingólfur“, lagði af stað meðan verið var að flytja út í hann lýsistunnur; það var aðeins hálfnað og skeytti ekki um að taka það sem eftir var. Það er nauðsynlegt að fá leiðrétting á slíku, og því ber eg fram þessa þingsályktunartillögu. Skal eg svo ekki orðlengja þetta meir, nema að tillögunni verði andmælt.