20.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

79. mál, strandferðir og millilandaferðir gufuskipafélagsins

Sigurður Hjörleifsson:

Eg tek undir það sem flutningsmaður sagði í byrjun ræðu sinnar, að of mikið sé um slíkar þingsályktunartilllögur hér á þingi. Einkum geta þær verið varasamar um slíkt efni eins og þetta. Það er ekki við búið, að deildin geti skoðað svo vel alla málavöxtu, að maður geti dæmt um það, hvort tillagan er á rökum bygð, því hér er margt að taka tillit til. Þessi tillaga er í mörgum liðum, og má segja, að misjafnlega réttmætt sé að taka tillit til þeirra. Mig furðar á, að þessi tillaga skuli koma fram nú, þar sem háttv. flutningsmaður hennar er í nefnd, sem falið var að íhuga strandferðir landsins. Annars skal eg geta þess, að því er snertir 1. liðinn, að það getur vel verið að „Perwie“ sé óhæft skip, enda er látið mjög illa af því, en eg veit þó, að það er ekki lakara en svo, að það hefir verið í vetrarferðum fyrir norðan land og til slíkra ferða eru ekki valin slæm skip. Annars er það altalað, að skift muni verða um skip til suðurlandsferðanna á komandi sumri, og þar af leiðandi er dálítið óviðkunnanlegt að koma með þessa tillögu um að fá annað skip en ,,Perwie“. Það getur vel verið að annað skip verði komið í staðinn, áður en stjórnin getur gert ráðstöfun í þessa átt. Eg vil sízt draga úr því að bornar séu fram sanngjarnar kröfur. En menn verða að líta á, að kröfurnar geta orðið of miklar og ósanngjarnar. Við borgum nú há gjöld til lítilla báta á Faxaflóa og Eyjafirði, en þessi bátur, „Perwie“, fer við strendur, sem gefa lítið af sér og eru hættulegar fyrir skip. Menn verða að taka tillit til, hvernig hagar til og gæta þess að vera ekki ósanngjarnir.

Þetta er nauðsynlegt að mínu áliti að íhuga í nefnd.

Síðasti liðurinn, um Vestmannaeyjar, þykir mér undarlega orðaður. Það er gert ráð fyrir að öll skip, sem fari austur um, komi við í Vestmannaeyjum í hverri ferð; að vísu eru Vestmannaeyjar uppgangsstaður, og alls góðs maklegar, og gefa landinu töluverðar tekjur með útflutningi á fiski. Þó er að gæta, hvort þessi krafa er samt sem áður ekki æði hörð. Eg hygg, að Vestmannaeyjar hafi beztar samgöngur á sjó af öllum höfnum á landinu.

Nú er iðulega heimtað af gufuskipafélögunum að þau láti skipin koma við á höfnum, sem ekkert verulegt er að gera. Menn verða að varast að gera slíkar kröfur út í bláinn. Eg legg því til að það sé íhugað í nefnd, hvort þessar kröfur séu réttmætar eða ekki, en get ekki samþykt tillöguna, eins og hún liggur fyrir.