20.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

79. mál, strandferðir og millilandaferðir gufuskipafélagsins

Sigurður Hjörleifsson:

Það hefir verið minst á samninginn við Thore-félagið viðvíkj. „Perwie“. Eins og hv. þm. vita, þá byggist samningurinn á tilboði frá Sameinaða félaginu um bát fyrir Suðurland, fyrir 20 þús. króna hækkun á tillaginu. Þetta er grundvöllurinn undir samningnum. Skipið átti að vera 100— 150 tonn og þykir mér undarlegt, ef að þessu skilyrði er ekki fullnægt. Nú veit víst enginn hv. deildarm. hve stórt skip „Perwie“ er, og er því óheppilegt að tala mikið um þetta atriði, einkum ef nú verður skift um skip í sumar, og annað betra kemur í staðinn; þá er óheppilegt að hafa haldið langa ræðu um þetta. Það er aldrei tímabært að koma fram með mál, sem ekki er nægilega upplýst.

Það getur auðvitað verið bagalegt að skip fari burt af höfn, án þess að vera búin að ljúka við uppskipun eða útskipun, en það getur verið fullkomlega réttmætt af skipstjóra að gjöra það. Það er um að ræða heill skipsins og hamla slæm veður því iðulega að skip geti fermt eða affermt. Við erum ekki sjómenn og getum ekki um slíka hluti dæmt. Eg skal benda á það sem dæmi, að þegar þingmennirnir komu hingað suður í vetur, austan og norðan um land, þá kom skipið við á Norðfirði. Þar er ekki komið nema örsjaldan, en samt fór skipið burtu frá litlum farangri, án þess að taka hann, vegna þess að skipstjóra þótti ganga of seint, og hafði hann þá afsökun, að skipið var fult af farþegum.