06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Gunnar Ólafsson:

Það er aðallega eitt atriði í tillögum nefndarinnar við fjáraukalögin, sem eg get ekki felt mig við. Eg á þar við tillöguna um að fella niður 40 þús. kr. til loftskeytasambands milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Eins og háttv. framsögumaður skýrði frá þeirri tillögu, þá fanst mér hann líta of mikið á þetta mál eins og litið var á ritsímamálið 1905, sama ofstækið gegn loftskeytum. Hann lýsti því yfir, að hann hefði sömu skoðun óbreytta, og það er eins og þar eigi ekkert á milli að komast, engin skynsamleg rök geta komist þar að. Ein mótbára hans móti loftskeytunum var sú, að það raskaði símakerfinu. Hvaða símakerfi er það? Eg veit nú ekki til að hér sé lögleitt neitt órjúfanlegt símakerfi, sem ekki geti slitnað, sé órjúfanlegt. Mér þykir þetta lítilfjörleg röksemdaleiðsla, því þótt síminn sé víða hentugur og komi sér vel, þá er þó ekki svo alstaðar. Hann tók það fram, að loftskeyti væru sérstaklega óhentug fyrir Vestmannaeyjar. Það er vitaskuld, að eg hefi ekki neina sérþekkingu í þessu efni og eg býst við að fjárlaganefndin hafi því miður líka heldur litla þekkingu á loftskeytum, en samt held eg þó, að eftir því sem til hagar við Eyjarnar og kunnugir menn segja og heilbrigð skynsemi býður mönnum að sjá, að sími geti hæglega slitnað milli Vestmannaeyja og lands. Ef það á sér stað, þá getur það verið óþægilegt og komið sér illa að geta ekki verið viss um að koma skeytum sínum áfram á hvaða tíma árs sem er. Það hefir verið nefnt til samanburðar að sæsími sá sem liggur yfir firðina á Vesturlandi hafi aldrei slitnað og það hefir verið talið, að sæsíminn milli eyja og lands mundi verða eins öruggur og hann. En eg held enginn geti ímyndað sér að þetta sé rétt, eða að sundið millum lands og eyja líkist þeim fjörðum á Vesturlandi, sem sími hefir verið lagður yfir, og eru sífelt skipgengir og straumlausir með sléttum botni. Setjum svo að síminn slitnaði fyrri part vetrar, þá væri skip ekki við hendina til viðgerðar á símslitinu, því ekki trúi eg að hægt sé að gera það á mótorbátum, þegar oft er ekki fær sjór vikum saman milli eyja og lands. Þegar svona er ástatt, getur kunnugur maður vel gert sér í hugarlund, að dregist geti mánuðum saman að gera við hann; og finst mér þá fara að verða allvafasamt, hvort rétt sé að halda svona fast í hann, þegar svo þar við bætist, að síminn verður dýrari en hitt fyrirkomulagið. Það var skakt, sem háttv. framsögumaður sagði, auðvitað óviljandi, þar sem hann sagði að landssjóði yrði dýrara loftskeytasambandið með 40 þús. kr. en símalagningin. Eftir áætlun, sem lá fyrir þinginu 1909, voru ætlaðar 42 þús. kr. til símasambands. Eg skal ekkert dæma um það, hvort efnið hefir lækkað í verði síðan, en mér þykir það ólíklegt og sést þá á því að símasambandið er dýrara. En þar sem háttv. framsögum. sagði að Eyjamenn hefðu boðið fram 8 þús. kr. frá sér til þess að síminn yrði lagður, þá er mér vitanlega engin átylla til að halda slíku fram. Eyjamenn hafa aldrei boðið nokkurt fjárframlag. Það var þingið 1909, sem setti þetta skilyrði og ætlaði með því að knýja þá til að leggja það fram. Eg efast nú um, að Eyjamenn hefðu nokkurn tíma þegið þetta, og eg er viss um að þeir leggja ekkert fram nú. Þeim stendur annað nær.

Ein ástæða háttv. framsögumanns var, að Eyjamenn vildu þau eigi, loftskeytin. Að þeir vildu heldur símasamband vegna þess að það væri svo þægilegt að geta talað til lands. En það er því að eins þægilegt og gott til frambúðar, að sambandið sé trygt. Og eg fyrir mitt leyti álít það skifta meiru máli að geta komið áríðandi skeytum, þegar þarf, og þetta er einmitt ástæðan til þess að eg álít að við eigum að taka loftskeyti en ekki símasamband, að þau eru miklu öruggari eftir því sem þarna er ástatt — þegar svo þar að auki er ekki dýrara að koma á loftskeytasambandi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Þess ber enn að gæta, að um leið og Vestmannaeyjar komast í samband við Reykjavík, þá liggur opið fyrir og er sjálfsagt að koma Eyjafjöllunum, Vík og Hornafirði líka í sambandið. Þessi héruð, sem þing og stjórn hingað til hefir hlífst við að leggja síma til, ættu þá samtímis að fá hvert sína stöð. Eftir því sem mér er sagt, mundu þær ekki kosta nema 20 þús. kr. eða minna. Þetta, að þessi bygðarlög geta samtímis komist í samband við heiminn, finst mér sérstaklega mæla með því að nú sé hér notað tækifærið og settar á stofn loftskeytastöðvar í Vestmannaeyjum og Reykjavík, með það fyrir augum að setja upp litlar stöðvar á þeim svæðum, sem ógerningur hefir verið að leggja síma til.

Eins og eg sagði áðan, þá var það ein ástæða háttv. framsögumanns á móti loftskeytunum, að Eyjabúar sjálfir væru þeim mótfallnir. Það mun mega heita svo, að það sé rétt. Það var samþykt á kjósendafundi í vetur af um 20—30 manns, þegar langt var liðið á fund og margir farnir, sem ekki gátu beðið lengur vegna róðra. En eins og við er að búast, þá höfðu menn ekki gjört sér grein fyrir því, hver munur væri á loftskeytasambandi og símasambandi, hvort væri hentugra þar. Þeir munu aðallega hafa litið til þessa þægilega sambands, að geta talað til lands.

Að loftskeytasamband gefi minni tekjur er sagt alveg útí loftið. Eg vil að eins benda á það, að það gæti aukið tekjur alls símans ef skip, sem loftskeytatæki hafa, senda skeyti til Vestmannaeyjastöðvanna, sem svo berast með símanum út um landið eða út úr því, auk þess sem slík símskeyti mundu oft geta varnað tjóni og bjargað mönnum úr hættu.

Eg verð því að álíta að það sé misráðið af meiri hluta nefndarinnar að halda svo dauðahaldi í símann, að þeir vilji ekki gá að því, hvað heppilegast sé fyrir landið í heild sinni.