14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

48. mál, stýrimannaskólinn

August Flygenring:

Eins og háttv. þingdeildarmönnum er kunnugt, gat eg þess við 2. umr. málsins, að koma mundi fram breytingartillaga, er færi í líka átt og eg þá tók fram, ef nefndin, sem fjallað hefir um Stýrimannaskólafrumvarpið ekki vildi sinna því . Nú hef eg að árangurslausu snúið mér til hennar í þessu skyni og leyfi mér því að koma fram með brtill., er hér hefir verið útbýtt.

Það er auðsætt hverjum manni, að starf það, sem gufuvélagæzlumönnum er ætlað, er hvorttveggja í senn, ábyrgðarmikið og vandasamt, og þarf því að setja föst og skýr ákvæði um það, hverjum skilyrðum menn þessir þurfi að fullnægja til þess að geta skoðast vaxnir því, að takast starfann á hendur. Þetta mál er nú einatt að verða okkur meiri nauðsyn, eftir því sem gufuskipastóllinn vex, og nú eru skipin ekki orðin svo fá, — að vísu flest minni háttar gufuskip — sem stunda fiskiveiðar hér við land, og sem fara á milli landa. Reynslan hefir sýnt, að það er engan veginn létt að fá hæfa menn í þessa stöðu. Mennina hefir orðið að sækja til útlanda, og hefir það orðið útgerðarmönnum ærið kostnaðarsamt, því slíkir menn eru venjulegast mjög kaupdýrir.

Maður verður að líta svo á, að nauðsynin á framkvæmd máls þessa, sé orðin allmikil, þar sem þessir gufuvélagæzlumenn hér, hafa stofnað með sér félagsskap. Þeir hafa augsýnilega ætlast til þess, að hér myndaðist smátt og smátt, þjóðleg, innlend stétt þessara manna; en það getur vitanlega ekki orðið án aðstoðar löggjafarvaldsins.

Það sem farið er fram á hér, er það, að stofnað verði sérstakt embætti í þessari fræðigrein við Stýrimannaskólann í Reykjavík; erlendis er þetta auðvitað kent á sérstökum tekniskum skólum nú orðið, en vegna kostnaðarhliðarinnar fer eg að eins fram á, að kenslan verði sett í samband við Stýrimannaskólann, þannig að til þess verði skipaður 1 aukakennari. Það sem oss auðvitað líka ríður mikið á er það, að geta hagað svo til málum þessum, að mennirnir geti fengið sem allrafullkomnasta verklega þekkingu. Til þess þyrfti auðvitað mekanist verkstæði, sem sjálfsagt kostaði talsverða peninga, en eg geri ráð fyrir að þingi og stjórn mundi verða ljúft að styðja að því í bráð, enda má mjög vel komast af með þá verklegu þekkingu, er að iðninni lýtur, sem beztu járnsmíðaverkstæðin hér í Reykjavík hafa að bjóða, og munu þau af þeim, sem bezt álit hafa í þessu skyni, verða að kenna þessum vélnemum — eftir bendingu stjórnarinnar — það sem þeirra iðn krefur.