14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

48. mál, stýrimannaskólinn

Gunnar Ólafsson:

Háttv. 3. konungk. þingm. gat þess, að hann hefði borið sig saman við nefndina um breytingartillöguna á þingskjali 177. Þetta er ekki rétt. Það getur vel verið, að hann hafi talað við einhvern mann í nefndinni, en hann hefir ekki borið sig saman við nefndina í heild sinni. En þetta skiftir engu máli. — Hinsvegar hefir nefndin borið sig saman um þessa breytingartill. og orðið ásátt um að leggja það til, að hún verði ekki samþykt að þessu sinni. Nefndinni sýnist ýmislegt mæla móti því, að bæta þessari námsgrein við, að svo stöddu, bæði vegna kostnaðarins og þó sérstaklega vegna ýmsra annara örðugleika á meðan málið er ekki betur undirbúið. — Hvað kostnaðinn snertir vildi háttv. 3 kk. þm. halda því fram,. að kostnaðaraukinn væri aðeins laun aukakennarans eða 1200 krónur. Þetta held eg að sé alveg rangt. Ef vel ætti að vera þyrfti að koma á fót mekaniskri verksmiðju. Það segir sig sjálft, að þesskonar smiðja væri alveg nauðsynleg til þess, að kensla í gufuvélafræði gæti komið að nokkru verulegu gagni. Og að hinu leytinu er það víst, að stofnkostnaðurinn mundi verða allmikill ef kaupa ætti verkfæri og kensluáhöld eins og með þyrfti. Nefndinni virtist þetta mál svo vaxið, að það væri ekki rétt að hrapa að því að þessu sinni, en hinsvegar er hún því alls ekki mótfallin í sjálfu sér og telur nauðsynlegt að slík kennsla komist á síðar, eftir nægan undirbúning. Gufuvélafræði er óþekkt fræði hér enn, og engir eða fáir sérfræðingar í þeirri grein. Þessvegna er ekki hægt að fá nægilega ábyggilegar upplýsingar í þessu efni að sinni. Eg veit ekki af nema einum vélfræðingi hér, en það er Halldór Guðmundsson. Hann hefir lokið góðu prófi í vélfræöi og mundi hann geta gefið upplýsingar um þetta mál. Enn hvort hann hefir öll skilyrði til að geta verið kennari í vélfræði, veit eg ekki sem stendur, en um aðra vélfræðinga er alls ekki að ræða.

Nefndin lýtur svo á, að þannig lagað nýmæli ætti að koma frá stjórninni, með þeim upplýsingum, sem þarf, bæði um kostnað og fyrirkomulag kenslunnar. Þá hefði næsta þing eitthvað að byggja á og gæti veitt það fé til þessarar fræðslugreinar, er þurfa þætti að fengnum ábyggilegum upplýsingum.

Nefndin lýtur því svo á, að þingið ætti ekki að ákveða neitt í þessu efni í þetta sinn en láta það bíða í þeirri von, að stjórnin taki málið til íhugunar og leggi það vel undirbúið fyrir næsta þing.