04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

August Flygenring:

Í þessari tillögu eru 3 liðir. Í 1. lið er gjört ráð fyrir að nefnd þessi rannsaki, hvort auka megi tekjur landsjóðs með einkarétti á aðfluttum vörum. Í 2. lið, að hún íhugi bankamál landsins, og í 3. lagi að hún athugi ýms atvinnu og verzlunarmál, svo sem hlutafélög og samvinnufélagsskap. Það blandast víst engum hugur um, að það er mikill vandi að kjósa í þessa nefnd, svo að hún verði vel skipuð, og geti leyst af hendi starf sitt, sem er afarmikið, eins og t. d. 2. liður.

Fyrsti liður er orðaður svo, að nefndin eigi að rannsaka, hvort tiltækilegt sé að auka tekjur landsjóðs með einkarétti á aðfluttum vörum. Þetta er nýtilkomin fluga, sem hefir verið skotið út og ætlast er til að megi bjarga með öllum fjárhag landsins. Eg og fleiri lítum svo á, að það væri miklu nær að íhuga ýmsar aðrar leiðir, sem skynsamlegri væru og auðveldari.

Út af þessu hefi eg ásamt háttv. 4. kgkj. komið fram með brtill. við þann lið, sem fer fram á að fyrst skuli rannsaka, með hverju móti sé tiltækilegt að auka tekjur landsjóðs, og síðan eða jafnframt, hvort heppilegt væri að landið hefði einkasölurétt á nokkrum aðfluttum vörum. Hið síðara hefi eg ekki sett af því, að eg álíti það atriði ætti að fylgja með, heldur hefi eg gjört það til samkomulags við neðri deild. Um hina liðina höfum við gjört þær tillögur, að þeir falli burtu, af því, að við búumst við að nefndin hafi stuttan tíma til starfa og að nefndarmenn hafi önnur störf á hendi jafnframt; þá þótti okkur ekkert þýða að hlaða meiri störfum á hana. Hvortveggja liðirnir eru svo umfangsmikil mál, að þau verða ekki rannsökuð nema með löngum tíma.

Síðasta brtill. okkar er að fella burtu, að 4 nefndarmanna skuli kosnir í Sameinuðu þingi. Við lítum svo á, að stjórnin sé miklu betri og hæfari til að skipa nefndina heldur en sameinað þing, velji hæfari menn en sem sam. þing kýs, því þar mun mestu ráða framgirni einstakra manna og flokksfylgi við þá. Nú með því, að ekki mun til neins að koma með þessa breytingu til neðri deildar, þá höfum við afráðið að taka þessa tillögu aftur. Hinar vonum við að verði samþyktar.