14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

48. mál, stýrimannaskólinn

Eiríkur Briem:

Eg ætla aðeins að leiðrétta dálítinn misskilning á milli háttv. þm. Vestur-Skaftf. og háttv. 3. kgk. þm. — Háttvirtur 3. konungkjörinn þingmaður sagðist hafa snúið sér til nefndarinnar í því skyni, að fá hana til að flytja tillögu í sömu átt og breytingartill., sem hér liggur fyrir, en háttv. þm. Vestur-Skaftf. neitaði, að hann hefði borið sig saman við nefndina. Báðir hafa í rauninni rétt fyrir sér. 3. kgk. þm. snéri sér til mín og spurðist fyrir, hvort nefndin mundi vilja flytja frv. um vélagæzlu og leggja til, að kensla færi fram í gufuvélafræði við Stýrimannaskólann. Nefndin átti tal um þetta sín á milli, en sakir ókunnugleika á þessu máli áleit hún ekki fært að flytja neinar tillögur um þetta, að þessu sinni. Þessa niðurstöðu sagði eg háttv. 3. kgk. þm. og því hefir hann komið fram með þessa breytingartillögu. — Málið sjálft er gott og gleðilegt er að heyra þann áhuga, sem háttv. 3. kgk. þm. hefir á þessu máli, því það er sjálfsagt framfaramál. En á hinn bóginn er málið illa undirbúið og vantar að vita um kostnaðinn, hve mikill hann mundi verða, og fleira, sem að þessu lýtur. Þessvegna þóttist nefndin ekki geta átt við þetta að þessu sinni, enda varla mikið í húfi, þó málinu sé frestað, þangað til betri undirbúningur er fenginn. Að líkindum hefði þessi tillaga ekki verið nefnd á nafn í þetta sinn, ef nefndin hefði ekki tekið lögin frá 1901, um próf í gufuvélafræði, upp á frumvarpið um Stýrimannaskólann, sem lá fyrir þessu þingi. Nefndin tók þessi ákvæði frá 13. sept. 1901 upp á frumvarpið, til þess að ná öllum ákvæðum um Stýrim.skólann og próf þar, saman í ein lög. En hefði nefndin ekki gert þetta, hefði líklega engum dottið í hug að koma fram með tillögu í líka átt sem till. á þingskj. 177.