01.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

30. mál, laun sóknarpresta

Framsögumaður (Kr. Daníelsson):

Þetta mál er ekki margbrotið, og hygg eg að hv. deildarmenn muni eiga auðvelt með að ákveða afstöðu sína til þess, þó eg fari ekki mörgum orðum um það. Eins og sjá má af athugasemdum stjórnarinnar og n. ál. þá er tilefnið til frv. runnið frá biskupi; hann sneri sér til stjórnarinnar og leiddi athygli hennar að því að breyta þyrfti ákvæðum 1. gr. laganna frá 16. nóv. 1907 um laun sóknarpresta, og nefndin komst líka að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt væri að bæta úr því misrétti og handahófi, sem verður í framkvæmd þessara laga. Þetta misrétti og handahóf kemur fram við það, að margir prestar hafa vígst eða fengið embætti á sama tíma. Þetta hefir komið fyrir og þessir prestar standa nú á takmörkunum með að flytjast úr lægri upp í hærri launaflokk. Árið 1886 vígðust 10 prestar, árið 1888 12 prestar og 1890 vígðust 8 prestar Misréttið kemur, eins og 1. gr. laganna hefir verið beitt í framkvæmdinni, fram á þann hátt, að sumir prestar hafa verið fluttir upp í hærri launaflokk meðan aðrir jafngamlir að embættisaldri, hafa orðið að bíða í lægri launaflokknum. Það er engin sanngirni í slíkum uppflutningi. Líklega hefir verið farið eftir aldri prestanna, þannig, að þeir, sem elstir voru mennirnir hafa fyrst verið fluttir upp, en þeir yngri orðið að bíða. Eins og segir í n. ál., má fyrirbyggja þetta misrétti, með því að fara eftir nákvæmum skilningi laganna. Það hefir ekki verið gert hingað til. Samkv. 1. gr. laganna getur enginn prestur fluzt upp í hærri launaflokk, nema hann sé orðinn eldri að embættisaldri en fullur þriðjungur eða fullir tveir þriðjungar allra sóknarpresta landsins. Sé greinin nákvæmlega rétt skilin og ákvæðum hennar nákvæmlega beitt, þá á, af tíu prestum jafngömlum að embættisaldri, enginn að geta komist upp í hærri launaflokk úr lægri, fyrr en þeir eru allir orðnir eldri að embættisaldri en einn þriðjungur eða tveir þriðjungar af prestum landsins. Þeir ættu því að bíða í lægri flokknum allir, þangað til svo margir hafa bæzt við hann, að þeir verða allir í einu fluttir upp í hærri flokkinn. Eg skal benda á það, að í niðurlagi 3. málsgr. í n.ál. hefir prentast setning, sem ekki átti að vera þar; það er setningin: „sem telja má víst, að lögin hafi ekki ætlast til, þó að svo hafi skipast um orðalagið“. Þessi orð eiga að falla í burt, því að það er upplýst, að til þess var einmitt ætlast, að ákvæðum laganna yrði beitt á þann hátt, sem eg hefi nú lýst, nefnilega að allir prestarnir bíði þangað til þeir gætu orðið fluttir upp allir í einu. En þá hafa þeir, er gengu frá lögunum tæpast haft fyrir augum tilfellin frá 1886 og 1888. Þeir hafa varla athugað það órétti, sem þessir prestar verða fyrir, eða hefðu átt að verða fyrir, ef lögunum hefði verið nákvæmlega fylgt, á móts við það, er einungis hafa verið vígðir í einu tveir eða þrír prestar. Eins og eg hefi nú útskýrt, hverfur misréttið milli prestanna og handahófið, sem nú er með réttu kvartað yfir, er haldið er við strangan, orðréttan skilning á lagagreininni. En þá kemur fram hitt handahófið og óréttið, að þeir bíða allir mikinn halla, og er það alveg ófært, því að með því móti er of lítið tillit tekið til embættisaldursins, og þeirra verðleika og reynslu, sem hljóta að leiða af langri starfsemi í embættinu. Það gerir engan mann verðugri til uppflutninga þó hann hafi verið svo heppinn, að fáir hafi vígst með honum, tekið embætti samtímis honum. — Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu, að óhjákvæmilegt væri að víkja frá þessari skiftingu í þrjá jafna flokka. Hún vill að vísu halda þrískiftingunni, en miða hana við þjónustutíma prestanna. Í frv. stjórnarinnar er líka þessi regla tekin upp, og eru takmörkin sett 10 og 20 ára þjónustutími, og þannig gengið út frá, að prestar séu að meðaltali 30 ár í embætti. Nefndinni kom saman um, að af þeim tímatakmörkum, sem sett eru í stj.frv. mundi leiða meiri útgjaldaauki en það sjálft ætlast til, og þingið mundi vilja aðhyllast. Auðvitað er það óhjákvæmilegt, að nokkur útgjaldaauki leiði af slíkri breytingu á lögunum, vegna þeirra presta, sem vígðir voru 1886 og ’88, en hann hverfur brátt, við það, að prestaköll verða lögð niður og margir prestar, sem nú eru í efsta í flokki, ganga burt, án þess nokkur komi í þeirra stað, svo að innan skamms tíma verður útgjaldaaukinn alls enginn. En til þess að lækka nokkuð þann útgjaldaauka, sem hlýtur að leiða af frv. í fyrstu, stingur nefndin upp á þeirri breytingu (þgsk. 63), að í stað 10 þjónustuára komi 12 ár, og í stað 20 ára komi 22 þjónustuár. Þá kæmust 12 ára prestar upp í miðflokkinn, og 22 ára prestar upp í efsta flokk

Eg hygg nú að eg hafi útskýrt frv. og br.till. nefndarinnar nægilega fyrir háttv. deildarmönnum, og skal ekki þreyta þá með fleiri orðum, en bæti að eins við, að eg vona, að frv. verði samþykt með þessari breytingu, sem við höfurn stungið upp á.