01.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

30. mál, laun sóknarpresta

Lárus H. Bjarnason:

Af því að svo má skilja athugasemdir stjórnarinnar og jafnvel nefndarálitið, sem kirkjumálanefndin, er undirbjó meðal annars lögin um laun sóknarpresta, hafi látið sér verða á „handahóf“ og jafnvel gefið tilefni til „misréttis“, leyfi eg mér sem fyrv. formaður nefndarinnar að geta þess, að nefndin flokkaði presta, svo sem þar er gert, af yfir lögðu ráði. Og gekk nefndinni það aðallega til flokkunarinnar, að hún vildi komast hjá að íþyngja landsjóði með launabreytingunni, enda tókst það.

En úr því að eg stóð upp, vildi eg jafnframt leyfa mér að leiða athygli að 1 atriði, sem mér finst nefndin hafa farið nokkuð létt yfir, enda sitja í henni þrír geistlegir herrar — en það er kostnaðarspurningin. Kostnaðaraukinn verður 1. árið 17 margfaldað með 200, samtals 3400 krónur. Hinsvegar er ekki hægt að segja, hver kostnaðurinn muni verða framvegis á ári hverju, en ekki ólíklegt, að hann skifti alls tugum þúsunda.

Og væri nógu gaman að heyra, hvort þeir tveir verzlegu herrar, sem í nefndinni sitja, háttv. 4. konungkj og háttv. þingm. Akureyrar hefðu athugað þetta.

Vinur minn háttv. 2. konungkj., sem nú var að biðja um orðið, sat í kirkjum.n. með mér og getur vitnað um, hvort launaflokkaskipunin hafi eigi verið gerð með yfirlögðu ráði.

Eg verð annars að játa, að eg ekki hef haft tíma til þess að athuga þetta mál sem skyldi. En rétt þykir mér, svo sem fjárhagnum nú er komið, að stofna ekki til ónauðsynlegra útgjalda landsjóði til handa, því að þó að prestlaunasjóður eigi í orði kveðnu að launa prestum, þá lendir þó það á landsjóði, sem prestlaunasjóður ekki orkar að borga.