10.05.1911
Sameinað þing: 5. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (2787)

Þinglok

Á fimta fundi hins sameinaða alþingis 10. maímán. tók forseti (Skúli Thoroddsen) til máls og mælti á þessa leið:

Alþingi hefir alls haft til meðferðar 107 lagafrumvörp, 24 stjórnarfrv., 83 þingmannafrv. Af þessum hafa 16 stjórnarfrv. orðið að lögum og 29 þingmannafrv. Hafa þá alls 45 frv. verið afgreidd sem lög frá þessu alþingi. Enn fremur hafa komið fram 49 þingsályktunartillögur; af þeim hafa 25 verið samþyktar og verið afgreiddar til ráðherra. Ein fyrirspurn til stjórnarinnar hefir verið borin upp og svarað. Af rökstuddum dagskrám hafa 11 komið undir atkvæði. Þó að störf þingsins hafi þannig verið allmikil og tala þeirra mála, sem til umræðu hafa komið, sé há, þá verður þó ekki sagt, að þingið hafi fjallað um mörg stórmál. — Markverðustu gerðir þingsins auk fjárlaganna, eru stofnun háskólans nú á þessu ári, og breyting sú, sem samþykt hefir verið á stjórnarskránni. Með stjórnskrárbreytingunni hefir, meðal annars, verið gerð ráðstöfun til þess, að bæta úr því ranglæti, sem kvenþjóð þessa lands hefir átt við að búa hingað til. Að vísu er það ekki trygt að fullu enn, að sú réttarbót nái fram að ganga, en fyrsta sporið er þó stígið í þá átt, og verður því, án efa, tekið með fögnuði. — Nú eru nýjar þingkosningar fyrir höndum, og vér óskum þess allir af heilum hug, að þær fari á þann hátt, sem verða megi þjóðfélaginu til mestra heilla og farsældar.