29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson S.-Múl.:

Eg bjóst við því, að mega geyma mig lengur en þetta, en úr því að enginn hefir beðið um orðið verð eg að taka til máls strax til þess að mæla dálítið með breyt.till. minni, og ætti það að vísu að vera létt verk, því að eg hefi verið svo heppinn, að flestir hafa haft góð orð um hana, nema ein eða tvær frjálsræðishetjur. Því, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði um hana, er lítil ástæða til að svara. Það voru eintómar fullyrðingar, en eng­in rök. Ein af þeim fullyrðingum var sú, að það væri ranglæti og handahóf að takmarka kosningar rétt eftir aldri. Eg vil nú spyrja. Á hverju er það þá bygt að hafa nokkurt aldurstakmark að neðan? Eg sé ekki betur, en að ef þetta væri rétt hjá honum, þá mætti altaf færa sig neðar og neðar, niður í barnið í vöggunni úr því það fer sjálft að geta sagt já og nei.

Hann gaf það eftir, að í öðrum lönd­um kynni þetta, að fjölga svo mjög kjósendum í einu og hleypa að öllu kven­fólki, að vera, ekki hættulaust, en það væri hættulaust hér, því að hér væri alt jafnt konur sem karlar. Að vísu virtist hann óra fyrir einhverjum ofurlitlum mun á körlum og konum í þorp­um og kaupstöðum, en í sveitum væri alls enginn munur. Eg skil ekki þetta og verð að halda, að það sé alveg rakalaust, því að eg held að eðlismismunurinn verði alstaðar álíka mikill.

En svo eg snúi mér nú að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) þá þótti honum það kenna dirfsku af mér að koma fram með þessa breyt.till. Það mun nú sýna sig, hvort margir taka henni eins og hann. Eg er viss um, að hún fær talsvert mörg atkvæði, og mér kæmi það meira að segja ekkert á óvart, þótt hún yrði samþykt hér, og þá líklega líka í háttv. Ed.

Menn spyrja hvað mér hafi gengið til. Aðalástæða mín er sú, að eg tel það með öllu óráðlegt að fjölga kjósendum um alt að ? hluta alt í einu. Það getur ekki verið hættulaust. Og eg vil spyrja háttv. mótstöðumenn mína, hvort þeir geti bent á, að nokkur mentuð þjóð hafi þorað að gera þessu líka tilraun. Nei, menn hafa farið aðra leið, vér Íslendingar eins og aðrir, sem liggur nær minni. Kosningarréttur fyrst afartakmarkaður og síðar aukinn smátt og smátt, og það er að ætlun minni eina rétta leiðin. Hitt er gapaskapur, það skal eg fullyrða þangað til mér verður sýnt fram á annað.

Háttv. þm. Dal. hafði um það kerskileg orð, að við mundum vera hræddir um að konur skorti hugrekki til þess að standa með okkur í frelsisbaráttunni, og hagaði svo orðum sínum, að auðsætt var að hann var að bregða mér og öðr­um, sem vilja fara dálítið hægra en hann, um hugrekkisskort. Já, eg skal játa það, að mig brestur hugrekki til þess að fylgja því, að löggjafarvald Íslendinga geri sig víðfrægt af endemum, eins og nú virðist vera stefna sumra þingmanna. Það sýndi sig á síðasta þingi og hér er enn unnið í sömu átt.

Fyrst eg stóð upp, verð eg að skýra hvað það er inst inni í huga mínum, sem veldur því, að eg tel kosningarrétt og kjörgengi kvenna vera til ills, held­ur en góðs. Menn eru sí og æ að tala um að nema burtu órétt og leysa höft. Það getur nú verið rétt, en það er ekki nema önnur hliðin. Hin hliðin er sú, að kasta ábyrgð og skyldustörfum yfir á þá, sem ekki hafa haft af þeim að segja hingað til, og það er líka vert að líta á þá hliðina. Eg hefði talið mér skylt að styðja hverja þá till., sem frest­aði eða drægi úr þessu gönuhlaupi með útfærslu kosningarréttarins, og þá eink­um að því, er tekur til kvenfólksins, og þá auðvitað líka till. háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), sem miðar dálítið í þá átt, ef ekki væri sá galli á henni, sem er. Eg tel sem sé rétt, að öll ákvæði um kosningarrétt eigi að standa í stjórnarskránni, og að ekki megi leyfa að raska við svo merkilegu grundvallaratriði með einföldum lögum. Þess vegna get eg ekki stutt tillögu hins háttv. þingmanns.

Menn tala um, að það séu afarmiklar framfarir, að þeim fjölgi sem allra mest, er taka starfsaman þátt í opinberum málum. En eg vil aftur leiða athygli að því, að þetta er að eins önnur hlið­in. Öllum réttindum fylgja — og eiga og fylgja skyldur. Hver sú kona, sem fær þennan rétt tekst þá sjálfsögðu skyldu á hendur að fara vel með hann. Til þess að geta það þarf hún að kunna það, þarf að hafa þá þekkingu, sem til þess þarf. Eg veit, að karlmenn hafa hana ekki allir, en skyldir eru þeir til þess eins fyrir því. Og vilja menn nú halda því fram, að sá tími, sem konur verða að eyða til þess að gera sig hæfar til að neyta þessa réttar svo sem vera ber, gæti ekki eins þarflega fyrir þjóðfélagið orðið notaður til einhvers annars? Hitt hljóta allir að játa, að sá tími, sem varið er til þess, verður ekki notaður til annars. Staða konunnar er aðallega sú, hér eins og annarsstaðar, að vera móðir og húsmóðir, og eg geri ráð fyrir, að enginn sé svo djarfur að halda því fram, að það sé þýðingarminna að ala upp börn og standa fyrir heimili, en að halda misjafnar ræður á alþingi. Það er því einfalt og auð­sætt, að sérhvað það, sem dregur huga konunnar frá heimilinu, er úr lakari átt, og þarf mikið gott á móti að koma, ef ábati á að verða að því.

Eg vil líka benda á það, sem eg hygg vera flestra manna reynslu, að pólitísk störf eru ekki vel löguð til þess að auka hina fínni og viðkvæmari kosti nokkurs manns. Og eg hygg, að ef það væri á nokkurn hátt unt, þá væri það þarft verk að aftra konum frá því að gefa sig í hið pólitíska skítkast og gera sig þannig konur að verri. Eg fyrir mitt leyti er öldungis viss um, að það mundi leiða til þess, að lífsfarsældin yrði minni, og mæla þó margir, að hún megi ekki minni vera. Sá eðlismismunur, sem er, má ekki missa sig. Þegar fram í sækir og til lengdar lætur má vera að hugsunarháttur kvenna breytist, en þá leysast líka heimilin upp. Þetta kalla nú sumir fjarmæli, en margir vitrustu menn heimsins eru nú samt á þessari skoðun.

Eg hefi nú notað tækifærið um hríð til þess að skýra frá því, hve mikill afturhaldsmaður eg er, og þá vænti eg, að eg verði að segja hvers vegna eg gerðist með öðrum flutningsmaður að stjórnarskrárfrumvarpi, sem veitir konum kosningarrétt. Það er af því, að með þessu virðist vera orðinn svo afarsterkur straumur alstaðar, þótt hvergi sé hann örari en hér, að eg þykist sjá fram á það, að hann verði ekki stýflaður. Þess vegna tel eg það viturlegra að reyna að beina straumnum í þá átt, að hann verði að sem minstu tjóni, sem unt er.

Eg hefi ætíð litið svo á og mun ætíð líta svo á, að þegar svo er komið, að kjósendum fjölgar svo afar mikið, þá sé lífsnauðsyn að setja einhverja stöðvun í stjórnarmaskínuna — einhverja seglfestu í skútuna — og því eru ákvæði meiri hl. um skipun efri deildar svo nauðsynleg, að eg álít, að engu megi frá þeim víkja til rýmkunar frá því, sem orðið er. Meira að segja, til þess að hafa nokkurnveginn örugga festu í löggjöf og stjórn þessa lands, þá tel eg það mjög illa farið, þótt það yrði nú ofan á, að kosningarrétturinn til efri deildar var ekki tak­markaður meir en gert var hjá nefndinni. Við höfðum upphaflega í frumvarp­inu hugsað okkur 35 ára aldurstakmark, og eg segi fyrir mig, að eg lýsi yfir því, að ef þessari litlu kjölfestu, sem enn er haldið eftir í frumv., verður líka kastað út, þá get eg ekki verið fylgjandi neinni rýmkun kosningarréttarins.

Eg geri ráð fyrir því, að það sé óþarfi að tala meira um þetta. Aðeins skal eg benda á það, að ef »referendum« yrði samþykt, sem eg alls ekki mæli með, þá styð eg þá tillögu um það, sem er frá háttv. þm. Sfjk. Hún hefir það fram yfir hinar, að þar er stjórninni líka áskilinn réttur til þess að skjóta málum undir atkvæði þjóðarinnar. Það er einsætt, að slíkt getur verið mjög hentugt. Ef stjórnin t. d. legst mjög fastlega á móti einhverju, sem þinginu er áhugamál og samþykkir sem lög, þá er ekki um annað að gera fyrir hana, eins og nú stendur, en annaðhvort að segja af sér eða rjúfa þingið, og það er dýrt spaug. Þetta ákvæði er því hentugt og enginn skaði að því, að stjórnin hafi þennan rétt. Líka er bót að því í þessari tillögu, að þar er ekki einungis gert ráð fyrir 4000 kjósendum, er heimti alþjóðaratkvæðið, heldur og 12 alþingismönnum. Vildi eg því, ef nokkur till. yrði samþykt í þessa átt, þá yrði það þessi.

Þá er br.till. frá vini mínum, háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.), þar sem hann vill fara bil beggja milli till. okkar Sunnmýlinga og nefndarinnar. Við viljum taka frumkvæðið til fjáveitinga af öllum þingmönnum, en hann vill taka það af einstökum þingmönnum, en leyfa það fjárlaganefnd í heild sinni. Eg viðurkenni, að þetta er í áttina, og mun greiða atkvæði með þessari till. hans, ef okkar till. nær ekki fram að ganga.

Eg hefi ekki tekið eftir því, hvort háttv. framsögum. hefir tekið nokkuð fram um 14. br.till. þeirra þm. Dal. (B. J.), sem minni hl. ætlast til að sé samþykt. Það var af vangá, að meiri hl. kom ekki með till. þessa efnis. Eg tók heldur ekki eftir því, hvort háttv. framsögum. skýrði það, hvað fyrir okkur vakti, þegar við völdum að halda tölunni 40 á þingmönnunum, og skiftinguna 25 og 15. Eg get nú sagt fyrir mig, að tölurnar 24 og 12 hefðu verið mér eins kærar, en eins og við vitum, er gert ráð fyrir að kjósa til efri deildar ? hluta þingmannanna 4. hvert ár með hlutfallskosn­ingum. Þessi kosningaraðferð kemur ekki að tilætluðu haldi, ef mjög fáir verða kosnir í einu, og hagsmuna meiri hlutans er betur borgið með tölunni 5 en tölunni 4. Þetta var mín einka ástæða, þótt eg haldi ekki fast við hana. Eg vildi aðeins benda á þetta, ef það hefir ekki verið tekið fram áður. Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) var einhverntíma í dag að hafa á móti þessari tilhögun á kosningum til efri deildar, og bar hann þær saman við það, sem ætti sér stað í Noregi, sem hefir óskift þing, eins og hann vill hafa. En þetta er ekki réttur samanburður, því að hér í frumvarpinu er gert ráð fyrir fríum einföldum kosningum, en í Noregi eru tvöfaldar kosningar (Jón Ólafsson: Ekki nú lengur). Sé svo, bið eg forláts.

Þá var háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) að bera okkur saman við þing Dana og sagði, að þar væri tvískiftingin og sérstaklega þá Landsþingið til mikils skaða; þetta er ekki saman berandi, því að kosningarrétturinn til Landsþingsins er annar en til Fólksþingsins, en hér er gert ráð fyrir sama kosningarrétti til beggja málstofanna. Danir hafa heldur ekki sameinað þing.

Áður en eg sezt niður, verð eg að benda á það, að eg get með engu móti verið samdóma háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um það, að kjörtímabilið skuli vera svo stutt, ekki nema 3 ár. Eg held, að það verki í sömu átt eins og annað hjá þeim háttv. þm., þá átt sem sé, að auka los og stefnuleysi í löggjöf og stjórn landsins, auk þess sem það er athugavert þess vegna, að kosningar kosta ærið fé í hvert skifti.

Eg vil skjóta því til manna, hvort ekki mætti breyta því með samkomulagi þannig, að kjörtímabilið yrði ekki skemmra heldur en 5 ár, ef það skyldi verða ofan á, að þing yrði haldið árlega. Eg vil taka það dæmi — þótt það þyki líklega fásinna eða goðgá nú orðið að nefna England sem fyrirmynd fyrir okkur — að kjörtímabilið hefir verið 7 ár hjá Englendingum hingað til, en nú eru þeir fyrst að færa það niður í 5 ár, og neðar vil eg ekki að við förum.