01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

25. mál, vegamál

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Skýringar háttv. flutningsm. (S. S.) hafa ekki þau áhrif, að eg verði fremur hlyntur frumvarpinu en áður. Hann gerði ekki mikið úr þeim áhrifum, sem þetta hefði á hag landssjóðs, og ef svo er, þá væri þetta ekki jafn þýðingarmikið fyrir héruðin og hinn háttv. þm. lætur í veðri vaka. Byrðin að viðhaldsskyldunni yrði þá ekki svo mjög þungbær fyrir jafn fjölbygðar sveitir. Þótt hinn háttv. þm. léti í ljósi, að samskonar ívilnanir mundu ekki verða veittar öðrum héruðum landsins, þá er eg því ekki samdóma, því að það yrði bein afleiðing, að landssjóður tæki að sér viðhald annara flutningabrauta. Að tiltölu við fólksfjölda bera þessi héruð langt frá meira en önnur héruð. Til eru héruð, sem bera fjórfalt meira í samanburði við fólksfjölda. Og þótt óánægja sé með gjaldið hjá sýslubúum, þá er það algengt. En það væri hart, að þau héruð, sem mestu hefir verið kostað til, greiddu ekkert fyrir samgöngubætur, sem þau hafa fengið úr landssjóði.