01.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

30. mál, laun sóknarpresta

Kristinn Daníelsson:

Háttv. 5. kgkj. kannaðist við, að eg hefði bætt úr þeirri yfirsjón, að fallið hafði niður úr nefndarálitinu; en það hefir nú ekki svo mikla þýðingu fyrir mál þetta.

Háttv. 2. konungkj. gaf þær upplýsingar, að nefndin hefði ekki viljað auka útgjaldabyrði þjóðfélagsins, og er það bæði satt og rétt. Þá gat og háttv 5. konungkj. þess, að í nefndinni sætu 3 geistlegir herrar, og gaf þar með hálft í hvoru í skyn, að tæplega mundi, af þeim orsökum, vera að vænta óhlutdrægni. Eg skal fúslega játa, að afstaða okkar er hvergi nærri góð, þar sem við erum að ýmsu leyti að dæma í eigin sök; en þó get eg fullvissað háttv. 5. kgk. þm. um, að við höfum unnið í máli þessu, eins samvizkusamlega og okkur frekast var unt. Um kostnaðaraukann er það enn að segja, að hann getur vel orðið töluvert minni en búist var við; en þess ber og að gæta, að menn mega ekki altaf einblína á skildinginn; málin þurfa líka að skoðast með réttlæti og sanngirni.

Annars er það alþjóð kunnugt, að prestum hefir ekki altaf verið gert sérlega hátt undir höfði, og hygg eg að fáir aðrir embættismannaflokkar, mundu hafa sætt sig við þannig lagaða meðferð.

Eg skal svo ekki þreyta hv. þingdeild með fleiri orðum um mál þetta, og treysti því að frv. fái fyrirstöðulaust að ganga til 3. umræðu.