03.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

30. mál, laun sóknarpresta

Kristinn Daníelsson:

Það hefir sjálfsagt ekki mikla þýðingu að lengja frekara umræður um þetta mál, enda býst eg við, að allir hafi þegar ákvarðað sig. Eg skil mjög vel, hvað vakir fyrir hv. þm. Skagfirðinga; hann vill spara fé landsjóðs; þetta vil eg bæði virða og meta; því þörfina til sparnaðar játa eg í hvívetna. Hv. sami þingmaður var heldur ekki samdóma mér og nefndinni um meðal þjónustualdur presta, en það get eg fullvissað hann um, að einróma álit nefndarinnar hneig að því að 36 ára takmarkið mundi vera alt of hátt. En hvað það ákvæði snertir, er eg sagði, að eftirleiðis mundi þjónustu aldur verða skemri, þá átti eg ekki beinlínis við skammlífi; heldur hitt að eg bjóst ekki við, að prestarnir mundu endast til að þjóna eins lengi í erfiðum prestaköllum; hér get eg talað af eigin reynslu, eg finn að eg muni ekki endast sjálfur eins lengi í því erfiða prestakalli, sem eg nú hefi, eins og eg hefði getað í léttu prestakalli, sem eg áður hafði, og eftir því hlýt eg að dæma um aðra presta. Sami háttv. þm. hélt því fram, að auknar vegabætur hefðu í seinni tíð gert prestum léttara fyrir en ella. Því neita eg auðvitað ekki, að þær hafi gert mikla bót, og án þeirra hefðu líka margar brauðasamsteypurnar verið óhugsanlegar; t. d. hefði engri átt náð, að ætla sér að leggja Kálfatjörn undir Garðapestakall, án bættra vega. En annars er nú vegabótum hér á landi víða svo farið, að aðalumbæturnar eru venjulega miklu fremur á milli sýslna; en oft og einatt máske sáralitlar, eða lélegar í hreppunum. —

Alveg þveröfugt fanst mér það hjá hv. 2. þm. Skagf., að störfin hafi nú í seinni tíð verið tekin af prestunum. —

Við alla framþróun mannfélagsins vaxa störfin og verða umfangsmeiri; prestar hafa enn á hendi öll hin sömu störf um fræðslu barna og unglinga; og þar að auki venjulegar húsvitjanir, ásamt mörgum fleiri störfum, sem á þá er hlaðið.

Eg ætla að leiða hjá mér handahófið, sem háttv. 2. þm. Skagf. var að tala um. Það er óviðkomandi máli þessu. — Mér finst þetta alveg sama og ef húsbóndi réði hjú, og hugsaði svo, að hann þyrfti ekki að leggja fram nokkru meiri forlagseyri, við fjölgun hjúanna.

Sama gildir auðvitað um landsjóðinn.

Eg skal ekki fara lengra út í það, sem háttv. sami þingm. sagði um innheimtuna; eg þekki svo vel til um þá presta, sem komnir eru undir nýju lögin; en það þykist eg vita um þá, sem enn eru undir eldri lögunum, að þar séu ekki öll kurl komin til grafar, þótt svo eigi að heita, að þeir séu lausir við heimtu launa sinna.