20.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

49. mál, dánarskýrslur

Sigurður Hjörleifsson:

Eins og ráðherra gat um, og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp þetta, hefir málið mætt nokkrum hrakningum á undanfarandi þingum, enda er það mjög skiljanlegt, því að þau frumvörp, sem áður fyr hafa legið fyrir alþingi líks efnis, hafa sum ekki verið framkvæmanleg. En eins og frumvarpið liggur nú fyrir, er það vel framkvæmanlegt og hefir lítinn kostnað í för með sér, en aftur á móti mikinn fróðleik. Það þykir nauðsynlegt að afla sér fróðleiks um sjúkdóma og dauðamein alidýra, og þá væri undarlegt, ef vér vildum ekki einnig leita samskonar upplýsinga um sjúkdóma fólksins í landinu, að svo miklu leyti sem unt er; og með því að almennar dánarskýrslur, eins og frv. gerir ráð fyrir, eru alveg nauðsynlegar til þess, að geta fengið nokkra ábyggilega þekkingu í þessum efnum, þá þykir mér ótrúlegt að frumvarp þetta verði felt. — Eg lít svo á, að það sé í rauninni óþarft að skipa nefnd í þetta mál, þar sem frumvarpið er því nær samhljóða frumv. því, er deildin hafði til meðferðar á síðasta þingi. En af því að háttv. þingdeildarmenn voru ósammála þá og frumv. síðan felt í neðri deild, hygg eg þó réttara, að málið verði enn athugað í nefnd, og leyfi eg mér að stinga upp á þriggja manna nefnd að lokinni umræðu.