07.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

49. mál, dánarskýrslur

Framsögum. (Sigurður Hjörleifsson):

Háttvirt deild hefir séð af þingskjali 96, að nefndin er sammála um að leggja til að frumvarpið verði samþykt óbreytt.

Það hefir verið talað töluvert um þetta mál og mér finst varla vert að eyða tímanum til að rekja það sundur. Ef mótmæli skyldu koma á móti því, væri fremur ástæða þá til að taka aftur til máls.

Vonandi er að það komist vel út úr deildinni.

Frumvarpið er ekki langt mál. Það er að eins þrjár greinar.

Í fyrstu grein ræðir um hversu fá skal dánarvottorð þar sem læknir á heima í kirkjusókninni. Í annari grein eru aftur ákvæði um, hversu fara skuli að í þeim sóknum þar sem enginn læknir er.

Aðalatriðið er tekið fram í þriðju grein. Prestar semja skýrslurnar og senda héraðslæknum, en þeir landlækni. Hér er þungamiðja frumvarpsins, að fá sæmilegar dánarskýrslur, landinu að kostnaðarlitlu.

Dálítil breyting hefir verið gerð við frumvarpið frá því, sem það var á síðasta þingi og er hún að tilhlutun landlæknis. Það er viðauki við fyrstu málsgr. 3. greinar og byrjar með orðunum: og tilgreinir prestur ... o. s. frv. Vona eg svo að málinu verði vel tekið og látið ganga til þriðju umræðu.