18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

49. mál, dánarskýrslur

Framsögumaður (Sigurður Hjörleifsson):

Breytingum þeim, sem háttv. neðri deild hefir gert á þessu frumvarpi, víkur þannig við, að hún hefir felt burtu ákvæðið um að binda skoðun á dánum mönnum við kirkjusóknir þær, sem læknir á heima í. Nú er þessi skoðun, sem frumvarpið fyrirskipar, að eins bundin við kauptún, sem eru læknissetur. Þetta er að því leyti lakara, að með þessu móti fást færri skýrslur. En það er aftur til bóta að því leyti, að kostnaður verður minni fyrir landssjóð, er af frumvarpinu leiðir, og ómökum er létt af mönnum. Nefndin hefir orðið sammála um að ráða deildinni til að samþykkja frumvarpið óbreytt. Í þessu sambandi skal eg geta þess, að 29 læknar landsins eru búsettir í kauptúnum og í þessum kauptúnum munu vera búsettir um 26,904 eða um 27 þús. manns. Eftir þessu má búast við, að hægt sé þá að fá nokkurn veginn ábyggilegar dánarskýrslur úr verulegum hluta af landinu. Það bætti og úr, ef sóknarprestur væri fenginn til að skýra héraðslækni frá hlutfallinu milli þeirra, sem búa í sókninni utan kauptúns, og þeirra sem í kauptúninu búa.

Nefndin ræður, sem sagt, deildinni til að samþykkja frumvarpið orðrétt.