06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Augúst Flygenring:

Það voru nokkrar athugasemdir, sem eg vildi gera við tvær breytingartillögur háttvirtrar fjárlaganefndar. Það var við 4. grein 4. og 5. lið E. V.

Hin fyrri þessara greina er um byggingu á íbúðarhúsi handa vitaverðinum á Siglunesi, þar sem farið er fram á að lækka tillagið til þeirrar byggingar um þúsund krónur. Frumvarpið fer fram á að til þessa séu veittar 3000 krónur, og er sú upphæð sett samkvæmt tillögum þess manns, sem hefir kynt sér málið vandlega. Þetta hús er áætlað 11 álna langt og 9 álna breitt með kjallara, einlyft og með lágu risi. Áætlun um hús þetta hefir verið gerð með ráði byggingarfróðra manna og þeim telst svo til, að húsinu verði ekki komið upp fyrir minna en 3000 krónur, og verð eg að fallast á, að þetta sé ekki of hátt eftir þeirri reynslu, sem eg sjálfur hefi í húsabyggingum. Þess er að gæta, að húsið stendur hátt, þar sem mjög er veðrasamt og verður því að vera sterklega bygt. Ennfremur má geta þess, að þangað sem húsið á að standa eru erviðir aðflutningar og er þá yfir höfuð ekki hægt að búast við að húsið verði bygt fyrir minna verð. Það má ekki hafa húsið of lítið eða svo veikt og illa bygt að skömm sé að því sem opinberri byggingu. Mæli eg því eindregið móti því, að þessi breytingartillaga hinnar háttvirtu nefndar nái fram að ganga.

Nefndin hefir líklega hugsað sér, að þetta hús yrði bygt úr steini, en jarðvegi er svo háttað þar að efni er ekki fyrir hendi til þess og verður því að byggja húsið úr timbri.

Hin breytingartillagan, sem eg vildi fara nokkrum orðum um, er um laun vitavarðarins. Frumvarpið gerir ráð fyrir 300 króna launaviðbót á þessu ári og að launin verði úr því 1200 krónur á ári, en það eru nákvæmlega sömu launin og vitavörðurinn á Reykjanesi hefir haft frá öndverðu, og er þetta að nokkru leyti bygt á því, að hér eru sömu ljóstækin og voru á Reykjanesi; þau hafa sem sé verið flutt þaðan norður. Get eg því ekki séð, að laun þessi séu of hátt sett, sérstaklega þegar þess er gætt, að maðurinn hefir ekki við neitt annað að styðjast. Landsjóður á þarna sár litla lóð og er því ekki tök á að koma þarna upp túni og yfir höfuð engin jarðrækt möguleg, sem gæti verið vitaverðinum til styrktar. Staðurinn liggur afskektur og er hér mjög eyðilegt.

Ennfremur er þess að gæta, að hér þarf lengur að tendra vitann en á Reykjanesi, eða að minsta kosti frá 20. sept. til 20. mars, meðan sólin hefir suður deklination. Það er ákveðið með lögum, hve lengi ljós á að kveikja og í skammdeginu er það nálega allur dagurinn þarna norður frá, en af því leiðir, að hann verður að hafa sér aðstoðarmann. Sé fjölskyldumaður í þessari stöðu, verður hann ekki of haldinn af að fá 1200 krónur á ári eða 100 kr. á mánuði.

Þó það sé ekki sagt beinum orðum í nefndarálitinu, þá má þó skilja það svo, að nefndin ætlist til að vitavörðurinn stundi síldarveiðar á Siglufirði þessa þrjá mánuði, sem ekki er kveikt á vitanum. En hér er á það að líta, að það er ekki víst að vitavörðurinn sé fær um það starf. Til vitavörzlu eru oft fengnir uppgjafa skipstjórar, sem ekki eru færir um erviða vinnu. Það þarf líka að hafa gæzlu á vitanum, þótt ekki sé kveikt, og það getur verið vankvæðum bundið að vera lengi burtu frá fjölskyldu sinni, sem er á þessum útkjálkastað. Flestum vitavörðum er gert það að skyldu í nálega öllum stærri annesjavitum að halda dagbók; á þar í að skrá ekki einungis veðurlag hvern dag, heldur og allar þær siglingar, sem bera fyrir augað. Eigi vitavörður þessi að uppfylla þessa skyldu, hvernig má hann þá vera að heiman fleiri mánuði?

Eg vil að síðustu mælast til þess að háttvirt deild taki til athugunar þessar bendingar, sem eg hefi gefið um áminst atriði, og vænti eg þá að atkvæðagreiðslan sýni það, að menn skilji mig, því að eg þykist hér byggja skoðanir mínar á góðum rökum.