09.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

23. mál, sóttgæsluskírteini skipa

Lárus H. Bjarnason:

Það er í rauninni óþarfi að bæta nokkru við það, sem hv. 3. kgk. (A. F.) hefir sagt. Hv. neðri deild ætlaðist til þess, að frv., eins og það fór frá henni, ætti að segja, að ekki að eins áteiknun danskra ræðismanna á sóttgæzluskírteini skipa skyldi falla burt. En orðalagið orkar tvímælis eins og hv. framsögumaður hefir tekið fram. Eftir núgildandi lögum eru það eingöngu verzlunarskip, sem sóttgæzluskírteini þurfa að hafa, en ekki fiskiskipin. Sýkingarhættan mun þó vera margfalt meiri af fiskiskipunum en hinum, t. d. trollurunum, sem þjóta fram og aftur milli Íslands og heimalandsins, og koma inn á hverja vík og hvern fjörð á landinu. Verzlunarskipin aftur á móti sigla að eins á löggilt kauptún, og fara auk þess miklu færri ferðir, ef til vill að eins einu sinni á ári. Hér virðist því liggja fyrir eitt af tvennu, að fella niður sóttgæzluskírteini allra skipa, eða taka upp skírteini fyrir fiskiskipin líka, en hið síðarnefnda mundi ekki vera praktiskt, meðal annars af því, að enginn væri til þess að líta eftir fiskiskipunum. En hætta af að fella niður öll sóttgæzluskírteini lítil eða engin, sérstaklega nú, þegar síminn er kominn, því með honum mun fyr fréttast um uppkomu næmra sjúkdóma, en með löppum þessum, sem mun vera undir hælinn lagt, hvort skipstjórar sýna eða ekki.

Eg er því samþykkur tillögu nefndarinnar.