20.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

171. mál, lögaldursleyfi

Ráðherra (B. J.):

Eg hygg duga, að nefna ræðu 5 kgkj. þm. (L. H. B.) aðeins einu sinni „hégóma“. Hann kallaði frumvarpið hégóma, ekki einu sinni, heldur sjálfsagt tíu sinnum. Hann vítti að þetta og önnur stjórnarfrumvörp hafi í þetta skifti verið frumsamin á dönsku. Eins og það hafi ekki viðgengist áður? Og eins og ekki megi til að bera þau upp á því máli í ríkisráðinu? Þar sem ekki er til neins að bera fram mál á öðru máli en þar talast.

— Það var villandi — þar sem þm. þessi talaði um að til stæði undirbúningur laga um þessi efni, með Norðurlandaþjóðunum. Hann veit það eða ætti að vita, að sá undirbúningur er þegar byrjaður. Þingm. þessi var að benda á það með miklum drýgindum, að stjórnin hefði getað leitað aðstoðar lagaskólans. En þar til vil eg svara því, að á meðan lagaskólinn er ekki lengra kominn en svo, að þar fer aðallega aðeins fram manuduktion (leiðbeining á dönskum lagakenslubókum), hygg eg þangað muni vera að jafnaði að fara í geitarhús ullar að leita. Eg skal þá ekki eyða fleiri orðum um þessa hégómaræðu 5. kgkj. þm. því að eg veit, að deildin muni ekki fara eftir tillögu hans um að fella frumvarpið.

(L. H. B.: Það var ekki tillaga mín).

— Jæja, þingmaður tæpti á einhverju í þá átt, þó að hann þyrði ekki að leggja það til berum orðum.