06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Steingrímur Jónsson:

Háttvirtur þingmaður Skaftafellssýslu mintist í ræðu sinni á loftskeytasambandið og hélt hann því fram í byrjun ræðu sinnar, að nefndin hefði litið nokkuð einhliða á það mál, er hún vildi fella tölulið þann burt og ætlaði hann, að í henni væri enn glímuskjálfti frá því, er fyrst var ákveðið hér á þingi um símalagningu milli landa. Eg held, að það sé hreinn óþarfi að óttast glímuskjálfta frá þeim tímum, enda virtist mér málið vera athugað mjög rólega í nefndinni og eg ætla að mín framsaga hafi einnig verið mjög róleg.

Það var rétt hjá háttvirtum þingmanni að hvorki eg eða meðnefndarmenn mínir höfðum þekkingu í þessu máli og því leituðum við einnig þangað sem þekkingin er.

(Gunnar Ólafsson: Þar sem hún er ekki til).

(Ráðherra: Alveg ástæðulaus orð).

Einmitt til þess eina manns, sem við verðum að ætla að hafi þekkingu í þessu máli, sem er símastjóri vor. Hann hefir sýnt það með starfi sínu hér, að hann hefir ágætt vit á öllu, sem síma við kemur.

(Gunnar Ólafsson: Er ekki sími annað en loftskeyti?)

Hann hefir sýnt og sannað nefndinni að símasamband við Vestmannaeyjar er ekki einungis mjög vel framkvæmanlegt, heldur gefur það og góða vexti. Hitt má vera, að hann hafi ekki vit á loftskeytum, en við létum okkur ekki heldur nægja það sem hann bar fram, heldur snerum við okkur einnig til umboðsmanns Marconifélagsins hér og fengum hjá honum upplýsingar, er að loftskeytasambandinu lutu.

Þá talaði háttvirtur þingmaður um símaslit, sem mundu verða mikil. Símastjórinn hefir látið það álit sitt í ljósi, að hér sé ekki um neina verulega hættu að ræða; raunar sé hættan meiri en á Arnarfirði, en ekki berandi saman við Færeyjar. Færeyingar notuðu líka verra efni og straumar þar eru miklu meiri en hér getur verið um að ræða.

En þó gert sé ráð fyrir nokkrum símaslitum, þá er það samt áreiðanlegt, að símastjórinn getur gert við þau með þeim tækjum, sem hér eru til. Hefir hann sjálfur sagt, að hann hann hafi gert við erviðari símaslit.

Það er annars mjög óheppileg aðferð, sem farið er að brydda á hér í þinginu, að ráðist er á æðstu starfsmenn þjóðarinnar og þeim brugðið sumpart um flokksofstæki og sumpart um þekkingarskort. Þetta hefir komið nokkrum sinnum fyrir í þinginu í vetur og er það bæði ómaklegt og órétt.

Þá sagði háttv. þingm. að stofnkostnaðurinn væri rangt tilfærður í nefndarálitinu, hann væri hærri fyrir síma en loftskeyti, og gat þess jafnframt, að áætlunum símastjórans bæri ekki saman. Þessu er svo varið, að símalagningin varð ódýrari austur en áætlað hafði verið, og er síðari áætlun símastjórans um símasamband við Vestmannaeyjar leiðrétt samkvæmt því. Sæsímalagningin er reiknuð nákvæmlega jafn hátt í báðum áætlununum.

En þetta er ekki aðalatriðið, hve dýrt sé að koma sambandinu á, heldur reksturskostnaðurinn.