18.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

107. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Ráðherra (Kr. J.):

Þetta mál hefir oft áður verið fyrir á þingi, hefir verið hér allar götur síðan 1893, og eg oft verið við það riðinn áður. Eg ætla nú að eins að minnast á eitt atriði, gagnkröfurnar; hvort heppilegt muni vera að beita þeim. Gagnkröfuskilyrðin, eða hvenær gagnkrafa geti komið fram, eru stranglögfræðislegs eðlis, og það er einhver sú vafasamasta lagaspurning, sem veltur á hárfínum lögfræðislegum skýringum, hvenær hleypa eigi að gagnkröfu í máli, svo að nefndin afréð, að gagnkröfur skyldu ekki koma til greina, er sáttanefnd kvæði upp úrskurð samkv. frv. þessu. Henni þótti ekki rétt að lagt væri í hendur alveg ólöglærðra manna úrskurðarvald í málum, sem annars þarf skarpa juridiska þekkingu til að dæma um. Að gagnkröfunum er slept hefir enga aðra afleiðingu en þá, að sá, sem hefir gagnkröfuna, verður að stefna henni sérstaklega til sáttanefndar með sérstakri sáttakæru, samkv. 1. gr. frumvarpsins og fá úrskurð um hana sem sjálfstæða kröfu. Þetta er líka hálft í hvoru viðurkent í c. lið 2. gr. stjórnarfrumvarpsins, þar sem segir, að ákvæðum 1. gr. skuli ekki beitt, ef kærði hafi gagnkröfu á hendur kæranda, og kærandi kannast ekki við hana.

Með þessu frumvarpi er verið að ganga inn á nýja braut hér á landi, braut, sem vel hefir gefist á Englandi. Þá sem sé að fá ólöglærðum mönnum úrskurðarvald í smáum þrætumálum. Á Englandi er það í almennum lögreglumálum, að ólöglærðir menn hafa dómsvald. Allir hinir svonefndu friðdómarar (Justice of Peace) eru ólöglærðir menn, þótt flestir hafi sér við hlið löglærða ráðunauta. En það er ekki löggjöfin, sem sér friðdómurunum fyrir þeim mönnum, heldur þeir sjálfir. Því þeir eru efnaðir menn margir hverjir. Líkt fyrirkomulag þessu hygg eg eiga sér stað á Frakklandi, getur verið víðar, þótt ekki þekki eg til þess. Hér er nú verið að leiða þetta inn, á alt öðru svæði reyndar, í smáum skuldamálum sem sé. Það sem fyrir mér hefir vakað, var það að með þessu frv, yrði mönnum gert hægra fyrir með að ná inn skuldum sínum. Eg þekki það bæði sem dómari og sýslumaður, að menn, sem hafa lögmætar smáskuldir að krefja, fara ekki í mál, af því þeim þykir það ekki svara kostnaði. Eg hefi sjálfur orðið fyrir því, fyrir eitthvað 20 árum, að maður, sem eg átti lítilsháttar hjá, neitaði skuldinni, og eg vann það ekki fyrir neitt að fara í mál út af henni. Kostnaðurinn hefði orðið sjö sinnum meiri en skuldin. Sérstaklega á það heima um blaðamannaskuldir, apotekaraskuldir o. s. frv., sem oftast eru mjög smáar.