24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

107. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Steingrímur Jónsson:

Eg get ekki fallist á þessa brtill. Mér þykir, sem með henni sé farið fram á svo mikla takmörkun á réttarbótinni, að frumvarpið megi þá eins vel falla, ef hún verður samþykt, því að þá verður ekkert gagn að því. Það er ljóst, að í mörgum málum má gera gagnkröfur, sumar eru á rökum bygðar, miklu fleiri ef til vill ekki á rökum bygðar. En þessi brtill. leiðir þá til þess, að sáttanefndirnar treysta sér ekki til annars en vísa fjölda mála frá. Það þarf ekki nema tilbúna gagnkröfu til að fá máli vísað frá sáttanefnd og kæranda sviftan úrskurði hennar. Eg hygg, að sáttanefndir telji sér ekki heimilt að taka til úrskurðar gagnkröfur, eftir því sem frumvarpið nú liggur fyrir. Ef brtill. verður samþykt er farið alt of langt, og þá er tekinn réttur frá sáttanefndum, sem ekki er rétt að svifta þær. Eg er kunnugur því frá embættisfærslu minni, að í smámálum, sem stafa af lítilfjörlegum millireikningi í viðskiftalífinu geta hinar undarlegustu gagnkröfur komið fram, og þær valda því þá, að sáttanefndir telja sig ekki hafa „kompetence“ til annars en vísa málinu frá. Eins og frumv. er nú, er það góð réttarbót, en ef brtill. verður samþykt, verður hún harla létt á metunum.