21.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Ráðherra (B. J.):

Mér kom það ekki á óvart, þó að virðul. 6. kgk. þm. (St. St.) líkaði ekki, að farið væri nú þegar að breyta fræðslulögunum frá 1907. Þar á við orðtakið „hverjum þykir sinn fugl fagur“, því að hann mun hafa verið einn af aðalsmiðum þeirra laga. Því er það ekki nema eðlilegt, að honum sé illa við að farið sé að hrófla við þeim að svo fáum árum liðnum. — Hann bar einnig fram þá ástæðu, að umsjónarmaður fræðslumála hefði ekki verið spurður ráða í þessu máli. Það getur vel verið, að það verði talið stjórninni til óvirðingar, en það getur líka verið, að stjórnin hafi einmitt að þessu leyti farið rétt að. Það er þjóðkunnugt, að sá maður er mjög ákveðinn fylgismaður eldri laganna, enda er hann einn þeirra, er mestan þátt áttu í undirbúningi þeirra. Það hefði því líklega verið að fara í geitarhús að leita ullar, ef stjórnin hefði snúið sér til hans þegar í ráði var að breyta þeim lögum til muna. Þess vegna hefir stjórnin ekki leitað ráða hjá honum, en alls ekki af því að dregið væri í efa, að hann hefði vit á slíkum málum, mörgum eða flestum öðrum framar.

Það má auðvitað þræta um það, hve alment hefir verið kvartað yfir núgildandi fræðslulögum. En það er óhætt að segja, að raddir í þá átt hafa heyrst bæði á þingmálafundum og víðar, og svo mikið hefir borið á umkvörtunum, að stjórnin verður að telja fyllilega réttmætt að gera umbót á lögunum þó að nýleg séu. Enda er það engin nýlunda hér þó að fárra ára lögum sé breytt.

Eg legg enn til, að nefnd verði skipuð í málið og álít gagnslítið að lengja umræðurnar að sinni.