21.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Lárus H. Bjarnason:

Eg stend upp til að minna hæstv, ráðherra á, að tvent sem hann hafði eftir mér var rangt hermt. Eg get vel skilið það, því að eins og maður sagði við mig í gær, þá er hann ekki með óröskuðum geðsmunum þessa dagana. Enda bað sami maður mig þess, að vera ekki slæmur við ráðherra.

Hæstv. ráðherra sagði, að eg hefði sagt að almenningur ætti ekki kost á frekari eða betri fræðslu. En eg sagði, að engin trygging væri fyrir því, að almenningur fengi frekari fræðslu. Eg sagði heldur ekki, að eg mundi eða vildi drepa frumvarpið; heldur þvert á móti, að eg mundi eftir atvikum styðja að því, að það yrði sett í nefnd.

Það getur verið, að eg hafi nokkurt álit á sjálfum mér, en enn þá hefi eg þó ekki kallað mig „höfðingja lýðsins“ á fjölmennum fundi. Hæstv. ráðherra þekti ekki á mér númerið. Það er engin ný bóla, að ráðherrann þekkir ekki það, sem hann ætti að þekkja. Svo var það t. d. þegar hann var að tala um skólana og sagði, að í lagaskólanum væri alt kent á dönsku. Hann ætti þó að vita, að yngsti kennari skólans hefir gefið út kenslubók með landsjóðsstyrk. Annars gæti eg lánað honum lista, þar sem stendur á, að eg sé nr. 5, svo að ráðherra þarf þá ekki oftar að flaska á því. Númerið á honum þarf ekki að minnast á. Það mun lengi minnisstætt.