21.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Stefán Stefánsson (6. kgk.):

Eg stend upp til þess að vísa á bug þeirri aðdróttun frá hæstv. ráðherra, að eg hafi talað móti frumvarpinu fyrir þá sök, að eg hafi tekið ástfóstri við fræðslulögin gömlu. Það er satt, að eg átti nokkurn þátt í tilbúning þeirra laga og eg álít þau góð lög, sem ekki ber að hrapa að að breyta, nema auðsætt sé, að breytingin sé til batnaðar. Það sem eg fann að, var það, að undirbúningur þessa máls hefði eigi verið nægur; annars sagði eg, að mér hefði getist vel að stefnu frumvarpsins og að það væri ef til vill gott þegar á alt væri litið, en að þar fyrir þyrfti ekki að fella gömlu lögin, sem hefðu mikla og góða kosti. Hvað viðvíkur afstöðu minni til stjórnar þeirra, sem við völd var, þá veit eg ekki betur, en að við værum báðir, hæstv. ráðherra og eg, beittir andstæðingar hennar og að eg hafi þrátt fyrir það fylgt gömlu stjórninni í þeim málum, sem eg gat léð henni fylgi mitt í. Eins býst eg við að fylgja hæstvirtum ráðherra í þessu máli og ýmsum öðrum, án nokkurs tillits til flokka, þótt ekki séum við sammála í einu helzta velferðarmáli landsins.

Eg verð að taka undir með háttv. þingmanni Vestur-Ísfirðinga, um að málið þurfi mikillar athugunar með, og að því beri að vísa til nefndar. Eg tel sjálfsagt, að það hefði ekki þurft að koma fram með þetta frumvarp nú, og að breytingar á gömlu fræðslulögunum hefðu skapast smátt og smátt eftir því, sem reynslan sagði til, og það álít eg, að orðið hefði affarasælla en að rjúka nú til og gerbreyta hinu nýja og lítt reynda lýðfræðslufyrirkomulagi.