06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Framsögum. (Steingrímur Jónsson):

Út af þeim orðum hv. þm. Akureyrar, er hann beindi til mín í upphafi ræðu sinnar, að eg hefði viljað gera þessa síldarmatspeninga að stórmáli, þá vil eg lýsa yfir því, að þetta er ekki rétt. Eg held, að allir hljóti að sjá, að nefndin gat ekki farið varlegar í þessu máli en hún hefir gert, og eg var einmitt fremstur í þeim flokki, sem ekki vildu leiða „asnann inn í herbúðirnar“ út af þessari aukafjárveitingu. Eg gleymdi áðan í ræðu minni símalínunni frá Ísafirði til Suðureyrar, og vil nú taka það fram, að eg álít ekki geta komið til nokkurra mála, að við förum að leiðrétta þann misskilning, sem fram hefir komið hjá Vestfirðingum, um að fá síma nú á aukafjárlögunum, þar sem þeir sjálfir fara fram á að fá hann á fjárlögunum; auk þess þarf umsögn símastjórans um málið.

Um leið og eg sezt niður, skal eg geta þess, að einn meðnefndarmaður minn skaut því að mér núna í augnablikinu, að hann hafi fengið þá upplýsingu frá merkum manni norðanlands, að Húnvetningar muni alls ekki kæra sig um að kvennaskólahúsið á Blönduósi verði bygt af nýju þar á staðnum.