04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Kristinn Daníelsson:

Eg get byrjað mál mitt líkt og háttv. framsögum (St. St.). Eg finn ekki ástæðu til að vera langorður. Eg býst líka við, að eg efni orð mín eins vel og háttv. framsögum.

Eins og nefndarálitið ber með sér, hefir lítilsháttar skoðanamunur verið í nefndinni — og eg get ekki leitt hjá mér að fara nokkrum orðum um þann skoðanamun. Eg er auðvitað sammála háttv. framsögum. um margt og mikið. Það var margt gott, sem hann sagði, eins og vænta mátti hjá honum. Hann sagði, að í nefndaráliti sínu væri flest það tekið fram, sem við hinir meðnefndarmenn sínir hefðum viljað taka fram. Eg vil í þessu sambandi benda á, að það veltur ekki alt á því, hvað tekið er fram. Það veltur líka mikið á því, hvernig eitthvað er tekið fram og einmitt þarna er stefnumunurinn fólginn. Munurinn á mér og háttv. meðnefndarmönnum mínum, háttv. 4. kgk. þm. og og háttv. framsm. er sá, að eg hefi svo að kalla setið á svikráðum við fræðslulögin frá 1907, þótt eg játi, að þau séu að sínu leyti góð. En hinir vilja ekki breytingar á þeim eða hyggja ekki eins fljótt á breytingar og eg. Eg skal geta þess, að þegar eg heyrði í haust, að til stæði gagnger breyting á fræðslulögunum, að stjórnin hefði slíkt í undirbúningi, fór um mig feginleikur, ef vera mætti, að nú fyndist ráð til að bæta úr fræðslulögum vorum svo, að uppfræðsla alþýðu mætti verða betri en áður. Þótt fræðslulögin, eins og eg sagði, kunni að mörgu leyti að vera góð, lít eg svo á, að þau séu með öllu aflvana til að gera alþýðu mentaðri og til að gera menn hæfa til að starfa að sveitamálum og héraðsstjórn. Enn sem komið er, er mikill skortur á mönnum til að fást við sveitarstjómir, að eg ekki tali um hve sárfáa bændur við eigum, sem eru hæfir til þingmensku og þau bæta ekki úr þessu. Eg hefi ekki viljað gera meira úr þessum skoðanamun en vert er, en eg vildi segja þetta skýrt, þótt eg viti ekki, hvernig mér hefir tekist það.

Það er eitt atriði, sem ekki er tekið fram í nefndarálitinu og eg vildi benda á. Mér þótti háttv. framsögum. gera of lítið úr óánægju almennings með lög þessi. Hún hefir einkanlega átt sér stað í fræðsluhéruðunum. Eg skal játa, að eg tala hér ekki af eigin reynslu, því að eg bý í fræðsluhéraði, en ekki í skólahéraði, en eg hefi heyrt marga þingmenn segja, að þessi óánægja ætti sér stað. Þessi óánægja hefir líka átt sér stað í skólahéruðum. Mönnum hefir fundist til um kostnaðinn, sem af þeim hefir staðið og hefir vaxið. Menn hafa sagt mér, að þeir byggjust ekki við, að börn sín lærðu meira að því skapi, sem kostnaðurinn væri meiri. Með þessu vil eg þó engan veginn sagt hafa, að fræðslan sé ekki góð. Í mínu prestakalli eru 4 hreppar og skólagjaldið verður því nokkuð mismunandi. En eg hefi auðvitað hvatt menn til að hlýðnast lögunum. Í slíku máli er löghlýðni sjálfsögð, þar sem svo mikið er lagt í sölurnar. Það er eðlilegt að almenningur sýni ekki mótspyrnu, né þverskallist gegn slíkum lögum, en það sannar ekki, að það sé ekki til óánægja með þau.

Það, sem vakir fyrir mér, er það, að upp úr fræðslulögunum þarf það fyrirkomulag að verða til, sem gerir alþýðumenn betur mentaða. Eg er ekki mótfallinn því, að unglingafræðsla verði sjálfkrafa, þannig, að upp rísi unglingaskólar, er einstakir menn annast og eiga, — og það er að nokkru leyti byrjað nú, — en hjá því verður ekki komizt, að þeir komist undir umsjón hins opinbera. Það verður að tryggja unglingum landsins það, að þeir geti fengið framhaldsfræðslu. Mér þótti háttv. meðnefndarmenn mínir gera of mikið að því, að vilja halda í núverandi fræðslulög, en það var aftur of lítill framhugur í þeim.

Mér fanst eg verða að gera grein fyrir atkvæði mínu og því, sem á milli ber. Það, sem okkur kom saman um, hefir háttv. framsögum. tekið fram. Við vorum allir á eitt sáttir um, að við gætum ekki ráðið til að gera frumvarpið að lögum, eins og það er nú undirbúið, og eg verð að vera á þeirri skoðun, þótt það bólaði á stefnu í frumvarpinu, er fyrir mér vakir. Eg og þeir nefndarmenn, sem eru á sama máli og eg, teldum heppilegast, að málið væri ekki beinlínis felt á þessu þingi, þótt það næði ekki fram að ganga. Eg vona, að háttv. þingdeild megi geðjast að rökstuddri dagskrá, er eg leyfi mér að bera fram og svo hljóðar:

„Þingdeildin telur mál þetta ekki hafa fengið þann rækilega undirbúning, sem það hefði þurft. En í því trausti, að stjórnin taki til yfirvegunar, á hvern hátt auka megi unglingafræðslu í landinu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Eg vona, að á þennan hátt geti málið orðið afgreitt eftir sameiginlegu ráði allrar nefndarinnar og er þá tekið tillit til þess, sem á milli ber.