04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Framsögumaður (Stef. Stef.):

Eg get tekið undir með háttv. 5. kgk. þm. Eg álít það raunar sæmilega moldan, að frumvarpið félli, en get þó verið með rökstuddri dagskrá. Eg get líka tekið undir margt af því, sem meðnefndarmaður minn háttv. þm. V. Ísf. sagði. Við viljum báðir, að unglingafræðsla sé aukin og barnafræðsla bætt. En hann heimtar meira af barnaskólum og barnafræðslu en rétt er og sanngjarnt. Hann býst við, að hún geti gert menn hæfa til að takast ýms störf fyrir þjóðfélagið á hendur, en hún á aðeins að leggja undirstöðuna en ekki búa menn undir nein sérstök störf eða lífstöðu. Margt af alþýðufólki fer ekki lengra en að það lætur barnafræðsluna nægja, hefir ekki þörf á meiru, og eg álít að hún geti oft verið nóg. En sumir vilja aftur fara lengra og þá eiga unglingaskólarnir að taka við, og þeir eiga að gera menn hæfa til að taka þau störf að sér, sem háttv. þm. V. Ísf. talaði um. Hann sagði, að barnaskólar hefðu reynst aflvana til að gera þetta. Það er alveg rétt. Þeir eiga ekki að gera það. Eg get líka tekið undir það, að undirstaðan ætti að vera betri en hún er. En þar sem háttv. þm. V. Ísf. (Kr. D.) talaði um óánægju með lögin frá 1907, þá eru það engar getgátur né ágizkanir, að þessi óánægja hefir eigi verið stórvægileg. Skýrslurnar, sem legið hafa fyrir nefndinni, sýna eins og áður er á vikið, að þau eru komin til framkvæmda í 162 hreppum að meira eða minna leyti, þótt fullkomið skipulag sé enn ekki alstaðar komið á.