04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Steingrímur Jónsson:

Eg stend upp til að lýsa því yfir, að eg get greitt atkvæði með hinni rökstuddu dagskrá. En eg vil líka lýsa afstöðu minni gagnvart þessu máli. Það má líkja barnafræðslufyrirkomulagi voru nú við veglega byggingu. Fráfarandi stjórn hefir þótt byggingu þessari að einhverju leyti ábótavant, þótt útliti hennar eða innréttingu að einhverju leyti ábótavant, ef til vill þótt hún of lágkúruleg. Hún hefir því viljað bæta einni lofthæð ofan á bygginguna. Og hún hefir viljað skýra húsið um og kalla það lýðfræðslu. Og eg viðurkenni, að það hafi verið góð hugsun í þessu hjá stjórninni. Eg hefði getað fylgt stjórninni, ef aðferðin hefði verið betri. Því með frumvarpinu var lögð sprengikúla undir húsið og hún hefði sprengt það í loft upp, ef það hefði náð fram að ganga. Svona kom frumvarpið frá stjórninni og eg áleit, að eg gæti ekki fylgt því. Ef hugsunin, sem lá að baki frumvarpinu, sem var sú, að auka og magna krafta fræðslufyrirkomulags okkar, hefði verið klædd í góðan búning, þá hefði eg getað fallist á frumvarpið.