05.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Gunnar Ólafsson:

Eg ætla aðeins að segja nokkur orð um þetta mál, frá almennu sjónarmiði. Eg skal játa, að það kom mér á óvart, að frv. þetta skyldi koma frá háttv. þm. Ísafj., mér þótti það einkennilegt eftir fyrri framkomu hans í þessu máli, því að hann var góður stuðningsmaður málins á síðasta þingi. Það er sjálfsagt að hann hefir borið fram þetta frumv. eingöngu af því, að hann þykist knúður til þess, eða af örvæntingu um fjárhag landsins, en ekki af því að hann vilji taka aftur neitt af því, sem hann hefir áður talað aðflutningsbanninu til stuðnings. Honum sýnist þetta vera nauðsynjamál, að fresta bannlögunum, „örþrifaráð“ eins og hann kallaði það sjálfur, til þess að bjarga landinu undan fjárhagslegum voða. Það er auðvitað, að þá viðleitni ber að virða, og viljann til að sjá landinu farborða í fjármálum. En samt sem áður get eg ekki fallist á þessa skoðun hans. Eg held miklu fremur að hann, sem er viðurkendur hyggindamaður og 25 ára gamall þingmaður hefði átt að geta fundið önnur betri ráð. Eg get ekki fallist á, að það sé bezta ráðið til að bæta úr fjárkröggum landsins, að láta landsmenn kaupa skaðlegan og óþarfan hlut, sem þeir verða að borga tvær krónur fyrir, til þess að ein króna komi í landssjóð. Þegar litið er á hag landsins eða þjóðarinnar í heild sinni, þá held eg, að þessi aðferð til að fá fé í landssjóð sé ekki til hagsmuna, heldur þvert á móti. Nú gekk ræða háttv. þm. mest út á það, að sýna fram á fátæktina og skuldabaslið í landinu. Er þá að mínu áliti því síður rétt að stuðla að því, að landsmenn eyði fé sínu að þarflausu. Því að háttv. þm. viðurkennir víst, að það sem eytt er fyrir vín kemur engum að gagni. Að vísu rennur tollurinn í landssjóð, en andvirði sjálfs vínsins fer út úr landinu, svo að það, sem kemur í landssjóð á þennan hátt, verða landsmenn í rauninni að borga tvöfalt.

Háttv. þm. kvaðst aldrei hafa farið jafn dapur heim af þingi, eins og hann mundi gera í þetta sinn, vegna þess hve fjárhagurinn væri ískyggilegur. Það getur verið, að þetta hafi við nokkur rök að styðjast. En eftir því, sem hann sjálfur lýsti fjárhagnum, þykir mér hann alt um of kvíðinn, ef hann setur fyrir sig þennan fjárhag. Hann tók það fram, að landið skuldaði 2½ miljón króna, en ætti aftur 1700 þús. kr. í viðlagasjóði. Hvað er þá sú rétta skuld mikil? Ekki nema 800 þús. kr. og eg verð að segja fyrir mitt leyti, að mér finst það hreint ekki neitt hræðileg upphæð.

Ennfremur tók hann það fram, að það væri skylda þingsins að beita öllum ráðum til að efla fjárhag þjóðarinnar og landsjóðs. En eg verð að neita því algerlega, að þingið eigi eða megi beita þeim ráðum til að auka tekjur landssjóðs, sem þjóðinni er ógagn að. Og hér er einmitt um það ráð að ræða, sem er skaðlegt fyrir þjóðina, enda tók háttv. þm. það oft fram, að þetta væri aðeins örþrifaráð.

Eg skil ekki í, að þetta frumvarp skuli vera fram komið frá háttvirtum þingm., sem það flytur nú, þar sem ekkert nýtt hefir komið fram í þessu máli, frá því þingið afgreiddi bannlögin, sem réttlætt geti þessa frestun. Það sem var sjáanlegt þá, er jafn sjáanlegt nú, og eg get ekki skilið, að það sé í raun og veru vansalaust fyrir háttvirtan þingmann að halda þessu máli fram, eða fyrir háttvirta deild að breyta nú til í þessu efni. Það er nokkuð mikil uppgjöf á stefnunni, að flytja þetta frumvarp nú, (Sig. Stefánss.: Stefnan sú sama.) en hafa áður verið að samþykkja aðflutningsbannslögin, og eg fæ ekki skilið að það sé vansalaust fyrir þingmanninn að bera þetta fram hér, né heldur vansalaust fyrir deildina að láta það fara lifandi héðan.

Hitt er annað mál, að þeir, sem börðust á síðasta þingi á móti aðflutningsbannslögunum, taka fegins hendi á móti þessari frestun, eins og hverju öðru, sem gæti orðið bannlögunum til falls. Það er í sjálfu sér ekkert við það að athuga, þeir hafa þá skoðun, að það sé nauðsynlegt fyrir landið að hafa áfengi, og að þjóðinni sé það hollast að súpa, um aldur og æfi, danskt brennivín, samhliða öðru góðgæti, er þaðan rennur.

Eg er aftur á móti þeirrar skoðunar, að það sé meir en tími kominn til þess að hætta við það, að það sé þjóðarnauðsyn.

Andstæðingar bannlaganna áttu svo öfluga meðmælendur hér í deildinni á síðasta þingi, að eg býst við að frumvarpið fái að ganga hér fram í dag. En eg mun greiða atkvæði móti því, að nefnd verði sett í málið, og einnig á móti því, að málið fái að ganga til annarar umræðu.

Það er annars athugavert, að flutningsmaðurinn skuli vera svo svartsýnn á fjárhag og framtíð þessa lands, að hann skuli neyðast til að koma fram með þetta frumvarp, þvert ofan í eigin orð og sannfæringu.