05.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Jósef Björnsson:

Eg skal ekki þreyta hina háttvirtu deild á löngu máli. Eg vil fyrst taka það fram, að í þessu máli er um tvö höfuðatriði að ræða. Annað atriðið er það, hvort æskilegt sé að fresta bannlögunum eða ekki. En hitt atriðið er hvort frestun sé nauðsynleg.

Eg spyr því: Á að fresta bannlögunum? Þá spurningu skal eg athuga bæði frá sjónarmiði þeirra, er bannið vilja hafa, og eins hinna, sem eru andstæðir því.

Frá sjónarmiði þeirra, sem banninu fylgja fram, hlýtur öll frestun á framkvæmd laganna að vera skaðleg. Þeir líta svo á, að áfengið hafi gert og geri þjóðinni skaða, og að skaða haldi áfram að leiða af því, svo lengi sem áfengið er haft um hönd í landinu. Af þessari skoðun eru bannlögin sprottin. Bannvinir telja áfengisnautnina þjóðarböl, og þessvegna vilja þeir útrýma henni úr landinu. Og því fyr sem þetta tekst, því betra er það frá sjónarmiði okkar bannvina. Vér teljum því allan drátt skaðlegan. Allur sá mikli óbeini skaði, sem vínnautn veldur, bæði á heilsu manna, efnahag o. s. frv., verður því meiri, sem vín flyzt lengur til landsins, og tekjur þær, er af víninu renna í landssjóð, tel eg minna verðar, en allan skaðann af því bæði beinan og óbeinan.

Hinum, sem andstæðir eru banninu, virðist mér, að einnig ætti að þykja það æskilegt, að banninu sé ekki frestað. Þeir hafa haldið því fram, að þjóðin myndi þegar sjá, er bannið væri komið á, hve óheppilegt það væri, og myndu því æskja þess, að lögin yrðu numin úr gildi hið bráðasta. Frá þeirra sjónarmiði virðist mér, að það hljóti því að vera æskilegast að fá þessa reynslu sem fyrst, reynslu, sem sanni, að þeir hafi farið með rétt mál, þegar þeir börðust gegn aðflutningsbanninu.

Það er því sama hvort litið er á mál þetta frá sjónarmiði bannmanna eða frá sjónarmiði andstæðinga bannsins, að báðum ætti að vera áhugamál, að lögin kæmu sem fyrst í gildi, og allur frestur væri óheppilegur, Hvorugir geta litið svo á, að frestun sé æskileg.

Þá er hitt atriðið:

Háttvirtur flutningsmaður sagði í framsögu sinni um málið, að þetta frumvarp væri óyndisúrræði, — með því játaði hann að bezt væri að komast hjá frestun, — sem gripið væri til, til þess að bjarga óheppilega slæmum fjárhag, en hann taldi það einnig „lítið ráð“.

(Sig- Stefánsson: Í sambandi við þarfirnar).

Hann sagði, að með þessu fengjust 300 þúsund króna tekjur, á þessum þrem árum eða tveim fjárhagstímabilum, en þó að tekjuaukinn sé þetta í orði, þá þykir mér það fremur „lítið ráð“ til þess að bæta úr þeim slæma fjárhag, sem háttvirtur framsögumaður talaði svo mjög um. Segjum svo að nauðsynlegt sé, að fá það fé, sem hér ræðir um, en það er ekki nauðsynlegt að fá það á þennan hátt.

Eg lít svo á, að það væri æskilegra að reyna að ná þessu fé inn með einhverju öðru móti, og það er enn tími að finna ráð til þess, því að það er ekki á næsta fjárhagstímabili, sem bannlögin valda landinu tekjumissi heldur á næst næsta fjárhagstímabili, enda er það líka játað af flutningsmanni. Tekjuaukinn er auk þess tvísýnn af frestuninni, eins og bréf það bendir á, sem þingmönnum hefir nú verið sent frá stórstúku Goodtemplara, og háttvirtur framsögumaður gat um. Og þó upphæðin væri sú, sem flutningsmaður gjörir ráð fyrir, þá er ekki heldur um svo stóra upphæð að ræða — þessar 300 þúsundir — að ekki sé vel hægt að ná henni á annan hagkvæmari hátt en með frestun bannlaganna. Í þinginu er nú til meðferðar frumvarp um farmgjald. Það tel eg betra til tekjuauka en frestun. En eg skal þá ekki þreyta deildina lengur á að ræða um þetta mál. Þó vildi eg nota tækifærið til þess, að taka það fram að lokum, að eg er háttvirtum flutningsmanni sammála um, að svo verður að ganga frá fjárhag landsins að megi heita gætilega og stillilega farið í það mál alt. En til þess að svo geti verið gert, er frestun bannlaganna engin nauðsyn. Eg tek mér orð sjálfs flutningsmanns í munn að „fresta því ekki til morguns, sem hægt er að gera í dag.“

Framkvæmd bannlaganna á ekki að dragast. Það á ekki að fresta þeim.