18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Lárus H. Bjarnason:

Hv. flutningsm. gat þess, við 1. umr. þessa máls, að það, sem hefði knúið hann til að koma fram með frv. hefði verið sú ábyrgð, sem hann fyndi til fyrir sína, flokksins, og stjórnarinnar hönd; þeim væri skylt að reyna að bæta það skarð, sem brotið væri í tekjur landsins með aðflutningsbanninu. Eg er honum sammála um það, að næst stjórninni hafi þetta staðið honum næst. Að vísu var þetta mál ekkert flokksmál, en þó beittist fyrverandi stjórn svo mjög fyrir því, að hún hefði átt að finna hjá sér skyldu til að koma með ákveðnar tillögur um aðrar tekjur í stað áfengistollsins, áður en lögin gengi í gildi. Svo sem kunnugt er, lagðist stjórnin undir höfuð að gera þessa skyldu sína. En nú hefir hv. þm. Ísafj., formaður „Sjálfstæðisflokksins“, bætt úr þessari vanrækslu hennar, og er það virðingarvert af honum. Að þessu leyti, er eg honum sammála. En að öðru leyti eru skoðanir okkar nokkuð skiftar. Eins og hann kannaðist við, getur frv., eins og hann orðaði það, orkað tvímælis; það er sýnilega skrifað í meiri flýti en menn eiga að venjast af honum. Enda kom það í ljós, að menn, sem annars skilja mælt mál, svo sem 2. þingm. Skagf., og framkvæmdarnefnd stórstúkunnar, skildu frv. svo, sem það færi fram á frestun allra bannlaganna um 3 ár. Sérstaklega gefur fyrirsögnin beint tilefni til þess skilnings. Raunar mátti þeim, sem vanir eru að fara með misjafnlega orðuð lög, vera það ljóst, að flutningsmaður vildi ekki hreyfa við nema einum þætti bannlaganna, aðflutningsbanninu. Í lögunum eru aðeins þrír þættir. Í fyrsta lagi banna lögin að gefa út vínsölu og veitingaleyfi eftir staðfestingardag þeirra. Í öðru lagi banna þau innflutning á áfengi eftir 1. jan. 1912. Og í þriðja lagi banna þau að selja, gefa, veita eða afhenda áfengi í landinu eftir 1. jan. 1915. Við 1. og 3. þætti átti frv. ekki að hreyfa, frestunin átti aðeins við miðþáttinn, innflutningsbannið. Hv. flutningsmaður vill að það komi ekki til framkvæmda fyrr en um leið og sölubannið. Hann gerði grein fyrir því, hvað fyrir honum vakti; aðal- eða jafnvel einka- tilgangur hans var sá, að útvega landinu meiri tekjur. Eg gaf tilefni til þess, að inní n.álit meiri hl. slæddist önnur ástæða, ástæða sem eg legg miklu meiri áherzlu á, nefnil. sú, að ekki megi taka þennan spón úr askinum, fyrr en annar spónn sé fundinn. Það er fyrir mér aðalatriðið. Og vík eg þá að brtillögum mínum, en með þeim þykist eg fyrst og fremst hafa tekið af allan vafa um skilning frv., svo að það geti ekki orkað tvímælis lengur og er það út af fyrir sig nokkurs vert. Um aðalatriði frv., að aðflutningsbanninu sé frestað til 1. jan. 1915, eða þangað til sölubannið kemst á, er þess fyrst að geta, að á alþingi 1909 var í fyrstu ætlast til þess, að hvorttveggja bannið skylli á í einu, þó að til samkomulags yrði að skilja þau í sundur. Það var ekki ósvipað því sem umsamdist, þegar kristni var lögtekin árið 1000, þá leyft að bera út börn og eta hrossakjöt um nokkurn tíma á eftir. Bannið hefði ekki komist á 1909 að öðrum kosti. Og í sjálfu sér er ekki miklu tapað frá sjónarmiði bindindismanna, þó aðflutningsbanni sé frestað jafnlengi og sölubanni. Aðalótti bannmanna mun vera sá, að ef einu sinni sé byrjað að fresta framkvæmd bannlaganna, án þess að reistar séu skorður við frekari frestun, þá liggi ekki fjarri að búast við, að þeim verði frestað upp aftur og aftur. Og þeim mönnum, sem álíta að áfengi sé ávalt til ills í hversu litlum skömtum sem er, er ekki láandi, þó þeir sé andvígir frestun, ekki sízt, ef þeir álíta, að hún geti orðið til þess, að bannið komist ekki á fyrr en seint og síðar meir eða ef til vill aldrei. Eg var stuðningsmaður bannlaganna á þingi 1909, og var það aðallega af þeirri ástæðu, að stjórnin og þingið 1907 hafði boðið kjósendunum uppá að segja til um, hvort þeir vildu hafa vín í landinu eða ekki, og þeir svöruðu, að þeir vildu bann. Eg var einn í þeirra tölu, sem ekki vildu bera þetta mál undir atkvæði kjósendanna 1908. Þeir voru ef eg man rétt c. 11 —12 í Nd., sem voru því andvígir. Eg áleit, t. d. af „taktiskum“ ástæðum, rangt, að kjósendur greiddu atkvæði um þetta mál, um leið og kosið var til þings um sambandsmálið. En nú var þetta gert, þjóðinni var leyft að segja álit sitt um málið, og var þá sjálfsögð skylda þingsins að taka afleiðingunum, og virða vilja hennar. Af þessum ástæðum greiddi eg atkvæði með bannlögunum á síðasta þingi. Enda var það ekki stórhættulegt, því að ef vilji þjóðarinnar breytist og hún sér sig um hönd, þá verður svo sem ekki erfitt að setja kútinn á stokkana aftur.

En af því annars vegar, að eg greiddi atkvæði með bannlögunum 1909 og engin skoðana skifti hafa lýst sér með þjóðinni síðan 1909 og vegna þess hins vegar, að skemri frestur en frv. ætlast til mundi nægja til að finna leið til þess að fylla skarðið eftir missi áfengistollsins, þá finst mér frv.frestunin vera of löng, óþarflega löng. Það er óhjákvæmilega nauðsynlegt að bæta upp þann væntanlega tekjuhalla, en eftir því sem á stendur sjálfsagt að hafa frestinn sem allra styztan; eg hygg að vér getum látið oss nægja eins árs frestun, eða að fresta aðflutningsbanninu til 1. jan. 1913. Næsta fjárhagstímabil nær yfir 1912—1913. Sé aðflutningsbanninu frestað til 1. jan. 1913, Þá flyzt inn árið 1912 bæði það, sem drukkið verður það árið og sem ætla má að verði drukkið árið 1913. Það kemur til af því, að af því víni, sem flyzt inn undir árslok 1912 þarf ekki að borga toll, fyrr en undir lok 1913. Þar með er næsta fjárhagstímabili séð fyrir nægilegum tekjum, og frekari skylda hvílir ekki á okkur á þessu þingi, í þann eindaga, sem nú er komið. Enda væri frestun aðflutningsbannsins til 1915 sömuleiðis bráðabirgða ráðstöfun, að eins nokkuð lengri, hún bætir ekki úr fjárþörf landsins nema rétt í svipinn. Sé mönnum ant um, að bannlögin standi, þá verður að finna aðra leið, sem getur orðið til frambúðar. En slíka frambúðarráðstöfun má gera annaðhvort á væntanlegu aukaþingi 1912 eða þá að minsta kosti á hinu reglulega alþingi í ársbyrjun 1913. Það sagði einhver hér ekki alls fyrir löngu, að núverandi stjórn væri ekki ætlandi að búa skattamál undir næsta þing. En eg verð að telja það kost fremur en hitt, að stjórn, sem undirbúa á skattalög, standi milli flokka. Og hún stendur jafnvel betur að vígi með að gera það undir aukaþing en reglulegt þing, sérstaklega, ef aukaþing yrði ekki haldið fyr en sumarið 1912, því að á því þingi liggja ekki fyrir önnur stórmál en stjórnarskrárbreytingin og dilkar hennar. Það má því gera sér fulla von um, að aukaþinginu muni takast að fylla það skarð, sem brottnám áfengistollsins heggur í tekjur landsins, og að minsta kosti er sitt hvað að ætla aukaþinginu það heldur en áliðnu yfirstandandi alþingi undbúningslaust. Eg fæ því ekki betur séð, en að eins árs frestun á aðflutningsbanninu sé fyllilega nægileg. Sömuleiðis vil eg benda á, að það er ekki alls kostar heppilegt, að innflutningsbann og sölubann skelli á í einu, því að þeir, sem hafa birgt sig upp, eiga sanngirniskröfu til að geta komið af sér án skaða, þeim birgðum, sem þeir sitja með þegar aðflutningsbannið gengur í gildi. Þessum mönnum er gert misrétti með því að láta aðflutningsbannið og sölubannið komast á á sama tíma. Vitanlega þarf ekki að vera tveggja ára bil í milli, en nokkurn frest verður að gefa þessum mönnum til að selja fyrirliggjandi birgðir. Eg get búist við, að frv. flutningsmanns verði samþykt í þessari deild, og skal eg því ekki orðlengja frekar um málið, en þó vildi eg að greidd yrði atkvæði um mína tillögu; það gæti ef til vill orðið til þess að vekja athygli hv. n. d. á henni.