18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Sig. Hjörleifsson:

Eg geri ráð fyrir, að tilgangslaust sé, að ræða þetta mál mikið. En annars verð eg að segja það, að einkennilegt er, að svo óhægt skuli vera að sjá fyrir úrslit þessa máls, þrátt fyrir atkvæðagreiðsluna á síðasta þingi og einkum eftir atkvæðagreiðslu þjóðarinnar fyrir síðasta þing. Eg get tekið undir það, sem hv. meðnefndarmenn mínir hafa talað í þá átt, að æskilegt hefði verið, að fyrverandi stjórn hefði undir búið undir þetta þing fjármálin á nokkuð annan hátt, þ. e. með ákveðnari tillögum um það, hvar taka skyldi tekjur í stað áfengistollsins. Reyndar hafði stjórnin þá afsökun, að ýmislegar tillögur lágu fyrir, t. d. frá milliþinganefndinni í skattamálum um aukna skatta, t. d. um fasteignaskatt og eignaskatt. Í annan stað hafði skattamálanefndin komið með beinar tillögur um það, hvernig útvega skyldi landinu tekjur í skarð áfengistollsins. Ein var sú að hækka toll á kaffi og sykri, og var það aðaltillagan. Önnur var sú að leggja á aðflutningsgjald á vörum. Þá var og á síðasta þingi mikið rætt um farmgjaldslög; og nú á þessu þingi hafa einkaréttarlög verið til umræðu. Hér er því úr ýmsu að velja, og ekki því um að kenna að ekki hafi komið fram nægar uppástungur um, hvaðan megi taka tekjurnar. Eg held að ástæðan til þess, að engin af þessum uppástungum hefir enn náð fram að ganga og yfirleitt ástæðan til alls þessa tals um fjárþröng, sé ekki sú, að menn álíti þessar tillögur ekki tiltækilegar, heldur hin, að menn vilja, sumir hverjir hindra það, að bannlögin komist í framkvæmd. Þetta, óvildin gegn bannlögunum, er kjarni málsins hjá flestum þessum mönnum, eg segi ekki öllum. Þeir vilja ekki fylla skarð áfengistollsins. — Að því er snertir frumv. þetta, eins og það liggur fyrir, skal geta þess, að eg tel engan vafa á því, að það auki tekjur landsins að fresta framkvæmd bannlaganna um þrjú ár. En aðgætandi er þó, að langmestur tekjuauki félli á þriðja og síðasta árið, en það liggur fyrir utan það fjárhagstímabil, sem við erum nú að semja fjárlög fyrir. Hafi það nú verið auðvelt fyrir fyrverandi stjórn að koma með tillögur um tekjur í stað áfengistollsins, þá hlýtur þetta að vera enn auðveldara fyrir núverandi stjórn, þar sem þegar er fenginn nokkur undirbúningur í þá átt. Eg fæ því ekki betur séð, en að við þurfum engan kvíðboga að bera fyrir þeim tíma, sem kemur eftir næsta fjárhagstímabil.

Eg get ekki annað en mælt fastlega á móti því, að frv. þetta verði samþykt. En ég vil líka leyfa mér að benda á, að mál þetta hefir fjöldamargar aðrar hliðar, en fjárhagshliðina. Þjóðin hefir sýnt það svo glögglega, að hún vill ekki fyrir nokkurn mun, að áfengið haldi áfram að vera í landinu, og það er aðal-atriðið.

Hvað snertir þá br.till., sem fer fram á, að frestunin verði aðeins um eitt ár, þá verð eg að segja, að hún er betri en sú er lengra fer — en samt verð ég líka að vera á móti henni, og frá fjárhagslegu sjónarmiði held eg, að hún muni gera fjarska lítið gagn. En hún er að minni hyggju fult eins mikil áreitni við lögin, og mér liggur við að segja, að til þess muni refarnir helzt hafa verið skornir hjá háttv. 5. konungkj. þingm. Eg veit að það muni ekki hafa mikið upp á sig að ráða hinni hv. deild til að fella frumvarpið, en eg verð að telja það stórt óhappaverk ef það verður samþykt.